148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[12:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með síðasta ræðumanni. Ég er hjartanlega sammála því sem í ræðu hennar kom fram. Það er auðvitað okkar að sjá til þess að byggðaáætlun verði ekki bara falleg orð á blaði. Eins og hv. þingmaður sagði hefur það því miður of oft gerst í gegnum árin að lítið hefur orðið úr verkum og efndum. Það er eitthvað sem mér finnst við þurfa sérstaklega að horfa til að fylgt verði eftir á þessu kjörtímabili.

Það er mjög margt þegar hafið og í gangi sem drepið er á í þessari viðamiklu áætlun. Mikilvægast er að hún haldist í hendur við aðrar áætlanir, að þær spili saman. Ég tel að það sé verið að gera. Í ríkisfjármálaáætlun leggjum við áherslu m.a. á skógrækt, af því að skógrækt var nefnd hér, við erum með ábendingar gagnvart henni o.s.frv.

Það sem ég var að velta fyrir mér, af því að það er svo stuttur tími sem við höfum, er þetta eilífa verkefni að skilgreina opinber störf án staðsetningar. Höfum við ekki séð það oft og lengi? Einhvern veginn fækkar þeim samt í hinum dreifðu byggðum. Síðast hvarf nýsköpunarstarf úr Djúpavogi, sem mér finnst við ekki hafa fengið nægilega góð rök fyrir.

Við þurfum að vakta þetta afskaplega vel og fylgja þessu mjög vel eftir. Það segir í tillögunni varðandi skilgreininguna á flutningi á störfum án staðsetningar „að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024“ sem þýðir að það á líka að gefa okkur skýrslu um framvindu byggðaáætlunar. Við þurfum sem þingmenn að fylgja henni að mínu mati mjög vel eftir.

Það er líka ágætt að meta kosti þess að setja niður nýja starfsemi sem verður til. Því miður hefur of lítið verið gert af því og einhvern veginn alltaf færð þau rök fyrir því að henni sé alltaf best fyrir komið á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að við sem búum í hinum dreifðu byggðum sjáum mörg og mikil tækifæri í því að slíkar stofnanir geti verið dreifðar.

Það sem mig langar aðeins að koma inn á er námslánakerfið og menntun og annað slíkt sem hefur kannski fengið takmarkaða umræðu. Að nýta Lánasjóð íslenskra námsmanna til þess að hvetja til dreifðrar búsetu þegar fólk hefur lokið menntun. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt um leið og námsleiðir, þ.e. í dreifðum byggðum, verði fleiri en þær eru, t.d. varðandi háskólanám, sérstaklega á Austurlandi. Svo þurfum við að styðja afskaplega vel við háskólana á Akureyri, Hólum og víðar úti um allt land.

Það getum við gert með margvíslegum hætti. Alveg eins og með framhaldsnámið og símenntunina, að auka rými fyrir námshópa. Það er eitt af því sem þarf að gera þannig að hægt sé að vera með marga byggðakjarna sem geta sameinast um það, þótt þeir séu ekki á nákvæmlega sama stað, að búa til einn námshóp. Eða þá að færra sé á einum stað og fleira á öðrum, að líta þannig á að hægt sé að færa á milli, ef maður getur talað einhvern veginn á þann veg.

Mig langar að nefna að góð áform eru hérna sem skipta máli, eins og t.d. íþróttafélög sem hafa um lengstan veg að fara til að tryggja og styðja við ungt fólk í íþróttum. Það þarf að koma til móts við það. Kostnaður er eitt af því sem hefur staðið því fyrir þrifum, jafnvel hafa verið felldir niður alls konar íþróttaviðburðir og leikir af því að svo dýrt er að fara. Þetta er eitt af því sem mér finnst skipta miklu máli.

Það sem er kannski grunnþátturinn þrátt fyrir allt í þessari byggðaáætlun er þjónustukortið sem mér finnst vera eitt helsta málið, þ.e. að sýna aðgengi landsmanna að opinberri þjónustu, þar sem er einhvers konar mælaborð sem sýnir framvinduna á stöðunni og framvindu í byggðamálum þannig að við sjáum með myndrænum hætti aðgengi landsmanna að þjónustu bæði opinberra aðila og einkaaðila til þess að við getum úr því bætt eða öllu heldur bara skilgreint að þetta er það sem við þurfum að gera.

Eins og ég sagði áðan er margt komið af stað, fjarheilbrigðisþjónusta, héraðslækningar og ýmislegt fleira, áfram verður haldið með jöfnunina til þess að verslanir og þjónusta geti þrifist úti á landi, það er mjög mikilvægt. Og svo auðvitað flugið sem við höfum talað svo mikið um sem almenningssamgöngur, þrífösun rafmagns o.s.frv. Það er lengi hægt að telja. Sumt af þessu er komið vel á veg. Við erum að klára t.d. í verkefnishópnum um þrífösun rafmagns og skilum vonandi af okkur fljótlega. Það er af mörgu að taka, en fyrst og fremst þurfum við að tryggja að geta fylgt þessu eftir, að þetta verði að raunveruleika.