148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[15:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegu forseti. Við ræðum hér ekkert smámál, við ræðum tillögu um að stíga eitt af þeim mörgu skrefum sem þarf að stíga til að uppræta launamun kynjanna í samfélaginu, launamun sem hefur viðgengist allt of lengi þrátt fyrir áratugabaráttu, alla vega í orði kveðnu, til að uppræta.

Með tillögunni er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra leiði viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, þjóðarsátt, um bætt launakjör kvennastétta sem starfa hjá hinu opinbera. Við sem stöndum að áliti meiri hlutans tökum undir þau sjónarmið sem þar koma fram og komu fram við umfjöllun nefndarinnar að launamun kynjanna verði ekki útrýmt nema með stórhug og samstilltum aðgerðum á borð við þessa og aðkomu samfélagsins alls. Þetta er samfélagsverkefni sem þarf að ráðast í.

Við umfjöllun nefndarinnar var bent á starfsmatskerfi sem Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa haft forgöngu um að þróa. Reykjavíkurborg er með stærri opinberu atvinnurekendum þannig að reynsla þeirra á þessu sviði er eftirtektarverð. Markmið þessa starfsmats er að tryggja að starfsfólki séu ákvörðuð laun með eins málefnalegum og hlutlægum aðferðum og hægt er. Þetta tekur því ekki bara á kynbundnum sjónarmiðum við ákvörðun launa heldur ýmiss konar óútskýrðum launamun á milli stétta hjá borginni.

Þessi aðferðafræði sló okkur, sem stöndum að meirihlutaálitinu, sem eitthvað sem gæti verið vænlegt til árangurs jafnvel í víðtækara samhengi en upphafleg tillaga flutningsmanna gerir ráð fyrir þar sem aðferðafræðin lítur ekki bara til kynjabreytunnar heldur gæti hún mögulega náð utan um mun á milli stétta, sem er oft tengdur stéttum þar sem konur eru í hærra hlutfalli en karlar, þ.e. í láglaunastéttum, en við gætum náð með þessu utan um láglaunastéttir óháð kynjabreytunni. Hún myndi fylgja með en mögulega væru önnur atriði sem líta þyrfti til.

Við teljum að samtal á milli aðila vinnumarkaðarins, hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, á þessum grunni gæti mögulega skilað varanlegum breytingum á launasetningu hjá hinu opinbera. Þar með gætum við ekki bara náð árangrinum sem stefnt er að með upphaflegri þingsályktunartillögu heldur örlítið víðari og jafnvel dýpri niðurstöðum.

Meiri hlutinn vekur athygli á að hjá ríkinu hefur ýmislegt verið unnið í þá átt, t.d. innleiðing jafnlaunastaðals sem flutningsmenn þingsályktunartillögunnar kannast ágætlega við, og vinna í samræmi við samkomulag við aðila vinnumarkaðarins um jöfnun kjara milli opinbera kerfisins og einkageirans sem hófst við jöfnun lífeyrisréttinda fyrir rúmu ári.

Við teljum að sú greiningarvinna sem mælt er fyrir í tillögunni geti fallið vel að þeirri stefnumörkun sem þegar liggur fyrir á þessu sviði og fram undan er. Við leggjum að því virtu til breytingartillögu svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að efna til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaganna um leiðir til að tryggja jafnræði við launasetningu ólíkra starfsstétta sem vinna hjá hinu opinbera. Ráðist verði í greiningu á launakjörum ólíkra starfsstétta, m.a. til að draga fram kynbundinn launamun, og sérstaklega verði horft til reynslu sveitarfélaga af starfsmati og skoðað hvort sú aðferðafræði geti nýst við mat á störfum á vegum hins opinbera.“

Að þessu áliti standa, auk þess sem hér stendur, Páll Magnússon, Birgir Ármannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Willum Þór Þórsson.