148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[15:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er afskaplega þörf þingsályktunartillaga. Það er nefnilega svo að ákveðnar kvennastéttir þar sem konur eru í langstærstum meiri hluta þeirra sem þar eru innan raða hafa, rétt eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson sagði rétt í þessu, verið kerfisbundið vanmetnar í gegnum tíðina. Þar breytir í engu hin mjög svo ágæta jafnlaunavottun, sem samþykkt var á þingi í fyrra, af því að stéttin öll er vanmetin.

Þingsályktunartillagan fjallar um sérstakt átak sem markvisst þarf að fara í, að gera þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Það er nefnilega svo að stundum þarf að gera hlutina með handafli. Það er ekki nóg að fara í einhvers konar viðræður eða samtal um að velta málinu fyrir sér í nefndum, heldur þarf að lýsa því yfir á hinu háa Alþingi að allir séu sammála um að fara í átak vegna þess að leiðrétta þurfi áratugagamalt kerfi af kerfisbundnu misrétti.

Við höfum fylgst með baráttu ljósmæðra undanfarna mánuði og jafnvel ár, baráttu þeirra fyrir að fá leiðréttingu á því kerfisbundna misrétti sem þær eru beittar. Þess vegna hefði ég haldið að Alþingi allt yrði með á þessari þingsályktunartillögu sem er svo ótrúlega mikilvæg, að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leiða viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, þar sem við tökum höndum saman um að gera þjóðarsátt um bætt launakjör kvennastétta. Skýrara verður það varla.

Þrátt fyrir breytingartillögu frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar tel ég að meðal þeirra sem þar eru séu einhverjir þingmenn sammála um nauðsyn þess að fara í þetta átak. Við sáum hvaða máli það skipti til dæmis hjá Reykjavíkurborg, að tekin væri ákvörðun um að útrýma kynbundnum launamun hjá borginni. Hvað gerðist? Reykjavíkurborg hefur skilað mjög miklum árangri hvað þetta varðar. Þar er staðan miklu betri en hjá ríkinu. Það var af því að tekin var ákvörðun um að útrýma launamun. Hann er ekki horfinn með öllu en hann er umtalsvert minni en hjá ríkinu. Þetta var gert með ákvörðun, með átaki.

Ég verð því að segja að það hryggir mig pínulítið að sjá hvernig meiri hlutinn afgreiðir þetta mál frá hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Manni finnst einhvern veginn að með þeirri breytingu sem þar er sé verið að útvatna þetta átak, að það eigi að gera þetta að einhverju moði, miðjumoði. Að efna til viðræðna — það er ekkert talað um þjóðarsátt sem ég held samt sem áður að ákveðnir hv. þingmenn séu sammála um að fara þurfi í. Ég er viss um og held að einhver misskilningur hljóti að vera á ferð.

Ég fagna þeirri breytingu sem minni hlutinn gerði á þingsályktunartillögunni, sem hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson mælti fyrir, og fagna þessari þingsályktunartillögu.