148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[17:30]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég tek undir með öðrum þingmönnum þegar ég óska hv. 1. flutningsmanni þessarar tillögu, Guðmundi Inga Kristinssyni, til hamingju með þann áfanga sem vonandi er að nást hér. Sú þverpólitíska samstaða sem hefur náðst um afgreiðslu tillögunnar er til mikillar fyrirmyndar. Um mjög gott mál er að ræða. Um er að ræða augljóst réttindamál þar sem við felum fjármála- og efnahagsráðherra að tryggja skattleysi uppbóta á lífeyri þar sem fólk fær augljóslega uppbætur til að bæta sér upp þann kostnað sem það verður fyrir stöðu sinnar vegna. Við höfum fjölmörg dæmi um slíkt skattleysi í tekjuskattslögum en þetta er mikið réttindamál fyrir þann hóp fólks og skiptir miklu máli, enda um mjög tekjulága einstaklinga almennt að ræða.

Þess vegna er ánægjulegt að sjá hversu mikil og góð samstaða hefur myndast um málið í þinginu og því fylgir skýr vilji þings og þrýstingur á fjármálaráðherra að skila frumvarpi þessa efnis hratt og örugglega til þings í haust og þá eigi síðar en 1. nóvember nk. Það er mjög ánægjulegt að ná slíkum áfanga en auðvitað fögnum við enn betur þegar við höfum samþykkt frumvarpið í vetur.