148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[15:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það sem er gott við þessa afgreiðslu er að þingið leitaði samkomulags við flutningsmenn um að málið fengi farsælan framgang eins og þeir höfðu helst viljað og í fullu samráði við þá. Því miður þraut menn örendið. Kannski hafa þeir talið að eitt góðverk á dag væri nóg, því að annað mál sem hér er á dagskrá seinna í dag hlaut ekki þessi sömu örlög. Að vísu var gengið til samninga um það, að menn töldu, en gengið var á bak þeim samningi. Það er verulegt áhyggjuefni og það er verulega vont. Það er verulega illur fyrirboði um það hvernig hér verður haldið á málum það sem eftir lifir af þessu kjörtímabili, hversu langt sem það verður.

Þess vegna skora ég enn á menn að ná nú samkomulagi um dagskrármál nr. 8 þannig að það fái þá afgreiðslu sem það á skilið og þau 100 þúsund heimili sem þar eru undir fái að vita afstöðu einstakra þingmanna og flokka til þeirra sjálfra.