148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[18:53]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegi forseti. Ég segi já, en mér láðist í atkvæðaskýringu um málið áðan að bjóða vinum mínum í Miðflokknum að vera með á þessu máli. Markmiðið er það sama. Við erum í vegferð, Alþingi samþykkti að leggjast á sveif með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem er með þetta á dagskrá í stjórnarsáttmála. Það væri nú bragur á því þegar markmiðið er það sama að við færum í faglega vinnu og næðum árangri öll sem eitt í þessu máli. Boðið stendur enn. Ég vona að ég sjái hv. þingmenn Miðflokksins leggjast á sveif með þinginu í þessu mikilvæga máli með þjóðarhagsmuni í huga. Ég ítreka að ég segi já og vonast til að sjá hv. þingmenn Miðflokksins með okkur í þessu máli.