148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[19:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Íslensk stjórnvöld undirrituðu tollasamning við Evrópusambandið um landbúnaðarafurðir haustið 2015, eins og kunnugt er, og hefur samningurinn tekið gildi. Hann tók gildi 1. maí síðastliðinn. Miðflokkurinn hefur verið ötull í baráttunni fyrir því að þessum samningi verði sagt upp vegna brostinna forsendna, ekki síst vegna þess að engin úttekt fór fram á áhrifum samningsins á íslenska búvöruframleiðslu og Miðflokkurinn flutti þingsályktunartillögu um að segja samningnum upp. Hún hefur ekki fengið afgreiðslu.

Þetta tiltekna mál sem hér er til umræðu gengur út á flýtimeðferð á ákvæðum í samningnum. Svo ótrúlegt sem það er er alveg bráðnauðsynlegt hjá ríkisstjórninni að ostakvótinn frá Evrópusambandinu fái að flæða hér inn strax á fyrsta degi á sama tíma og það virðist vera alveg ómögulegt að opna fyrir kvóta frá Íslandi inn til ESB í sérstakri flýtimeðferð. Í máli þessu hefur verið talað um mistök í lagasetningu. Það er bara ekki rétt. Þegar búvörusamningarnir voru til umræðu í þinginu árið 2016 kom fram að hraða ætti innleiðingu á tollkvótum fyrir sérosta. Hins vegar, og það er mikilvægt að hafa það í huga, átti samhliða því að hraða innleiðingu á mjólkurvörum frá Íslandi inn á Evrópumarkað.

Kjarni málsins er þessi: Semja átti um gagnkvæmni í þessu en ekki að gera þetta einhliða. Þess vegna var ekki lögð fram nein lagabreyting um málið á þeim tíma. Þetta eru því ekki nein mistök. Lagt var fyrir ráðherra að fá fram gagnkvæmni í þessu máli. Ef Evrópusambandið hefði samþykkt að opna t.d. fyrir skyrkvótann okkar hraðar hefði það verið eðlilegt. Ég get ekki séð að þetta hafi einu sinni verið rætt við Evrópusambandið. Eins og allt annað í þessu máli í heild sinni er þetta einhliða eftirgjöf stjórnvalda gagnvart Evrópusambandinu á kostnað bænda á Íslandi. Þetta er ekki leiðrétting á mistökum. Málið sýnir einfaldlega svo ekki verður um villst að þetta snýst ekki um hagsmuni íslensks landbúnaðar.

Frú forseti. Þó að tíminn sé naumur er óhjákvæmilegt að ræða aðeins nánar um tollasamninginn í þessu samhengi. Nú þegar hann hefur tekið gildi er nauðsynlegt að ræða hvaða áhrif það mun hafa á íslenska búvöruframleiðslu. Hvernig var staðið að samningsgerðinni? Hvaða áhrif hefur það á samninginn að Bretland, okkar stærsta og besta markaðssvæði mun hverfa úr samningnum á næsta ári við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu?

Ég ætla að fá að tiltaka nokkur atriði örstutt sem ég tel að sýni glögglega að ekki var nægilega vel staðið að samningsgerðinni fyrir Íslands hönd og hversu óhagstæður þessi samningur er fyrir Ísland. Hann endurspeglar ekki stærðarmun markaðanna. Það hefur komið fram og ég hef sagt það áður í þessum ræðustól. Markaðssvæði í Evrópu er um 500 milljónir manna. Á Íslandi erum við 350.000 manna markaður. Öll sanngirnissjónarmið mæla með því að í samningi sem þessum sé tekið tillit til stærðarmunar markaða. Það var t.d. gert í samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um landbúnaðarvörur árið 1995.

Það er grundvallaratriði í samningsgerð að báðir aðilar megi vel við una. Því er ekki fyrir að fara í þessum samningi. Það er bara staðreynd.

Í öðru lagi fór engin sérstök úttekt fram á áhrifum samningsins á innlenda búvöruframleiðslu. Það er mikill annmarki á þessum samningi. Það sjá allir. Í alþjóðlegri samningatækni er það grundvallarregla að hafa víðtækt og gott samráð við hagsmunaaðila.

Frú forseti. Að lokum tek ég undir með hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni framsögumanni um að það er nauðsynlegt að málið fari aftur til hv. atvinnuveganefndar milli 2. og 3. umr.