148. löggjafarþing — 79. fundur,  13. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[00:06]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Hér hefur átt sér stað ágæt og athyglisverð umræða, þótt oft og tíðum hafi hún ekki beint fjallað um nákvæmlega það mál sem við erum að ræða núna, heldur almenna afstöðu til tolla og fríverslunar almennt og einhvers óskilgreinds frelsis sem stjórnmálamönnum er tamt að veifa þegar það hentar þeim í pólitískri umræðu.

Í ljósi orða margra hv. þingmanna sem talað hafa á hér undan langar mig að fara í örstuttu máli yfir tímalínuna í þessu af hverju við erum yfir höfuð að fjalla um þetta mál.

17. september 2015 gera stjórnvöld tollasamninga við Evrópusambandið. Þar er kveðið m.a. á um innflutning á ostum. Í tollasamningunum er kveðið á um fjögurra ára aðlögunartíma fyrir íslenskan landbúnað.

19. febrúar 2016 eru búvörusamningar undirritaðir. Rúmum mánuði síðar samþykkja bændur búvörusamninga þar sem þessir umræddu tollasamningar liggja undir, einu tollasamningarnir með fjögurra ára aðlögunartíma sem bændur vissu af þegar þeir rituðu undir og samþykktu síðan búvörusamningana.

13. ágúst 2016 ákveður atvinnuveganefnd Alþingis einhliða, án nokkurs samráðs við bændur, að breyta ákvæðum þess tollasamnings er lýtur að akkúrat þessum upprunamerktum sérostum. Það er, eins og ég segi, einhliða ákvörðun Alþingis sem því er að sjálfsögðu frjálst að taka, enda ekki hægt að binda hendur Alþingis með undirskriftum ráðherra. En ég ítreka að þetta er einhliða ákvörðun sem bændur vissu ekki af þegar þeir samþykktu búvörusamninginn. Þar var kveðið á um að falla frá þessu fjögurra ára aðlögunartímabili sem lá undir þegar bændur samþykktu.

En þessi einhliða ákvörðun var hins vegar tvíhliða samþykkt, því að tekið var af bændum fjögurra ára aðlögunartímabilið. En til að vega upp á móti því skuldbatt Alþingi sig, og stjórnvöld, til að vinna að því að opna markaði erlendis. Kaup kaups. Svo erum við hér í dag að taka ákvörðun um hvort eigi að líta einungis á aðra hlið peningsins alveg óháð því hvort unnið hafi verið í hinni. Að kaup kaups séu ekki lengur kaup kaups, heldur að við ákveðum að taka bara aðlögunartímann í burtu þó að við höfum ekkert unnið í því sem við sögðum þó að kæmi í staðinn fyrir aðlögunartímann, því að það er ástæðan fyrir því að atvinnuveganefnd samþykkti á sínum tíma að beina því til ráðherra samhliða því að vinna að aðgangsheimildum á innri markaði Evrópusambandsins fyrir mjólkurafurðir, að þeim verði hraðað.

Það er ágætt að algjörlega óháð þessu sé verið að flytja út mjólkurafurðir. Það er bara ekki hluti af þessum samningum. Það er ekki hluti af þessum aðgerðum eða loforðum eða vilyrðum eða hvað við eigum að kalla það sem stjórnvöld fóru í, gáfu ádrátt um, í þessu máli. Þetta eru staðreyndir málsins.

Við getum haft allar þær skoðanir sem við viljum og höfum á því hvort eigi að vera tollar á ostum eða ekki. Það er bara allt, allt önnur umræða. Við erum að ræða um það ferli sem hófst með tollasamningunum 17. september 2015.