148. löggjafarþing — 79. fundur,  13. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[00:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Í síðustu viku má segja að við þingflokksformenn og formenn flokka höfum hafið þá vegferð að komast að samkomulagi um þinglok. Við þá vinnu notuðum við það verklag að við ræddum þau mál sem við töldum verulega vankanta á eða að þörfnuðust lagfæringa. Þetta á t.d. við um frumvarp um rafrettur þar sem við náðum fínustu lendingu með lausnamiðaðri vinnu allra sem að málinu komu. Sömu sögu má segja um sterafrumvarpið svokallaða, bann við ákveðnum frammistöðubætandi efnum, þar sem við náðum góðri lausn fyrir alla hlutaðeigendur.

Herra forseti. Ég hef vonda tilfinningu fyrir þessu máli vegna þess að við í stjórnarandstöðunni höfðum tíma og tækifæri til að ræða þau mál sem við höfðum áhyggjur af og komast að einhvers konar niðurstöðu, hvernig sem hún svo sem varð, en gagnvart þessu máli hef ég vonda tilfinningu vegna meðferðar þess. Við upphaf þeirrar vegferðar að gera samninga um þinglok vakti það engar áhyggjur hjá minni hlutanum en það hefur tekið grundvallarbreytingum á lokadegi þingsins í vafasömum kringumstæðum. Mér þykir miður að segja það en þetta dregur úr trausti mínu á þeim samningum sem eru gerðir við þinglok vegna þess að í byrjun þessarar vegferðar töluðum við um þau mál sem við höfðum áhyggjur af og athuguðum hvort við gætum komist að einhverri niðurstöðu. Svo komumst við að samkomulagi um hvernig þinginu skyldi lokið.

Ef það gerist svo á lokadegi að málinu sem við höfðum engar áhyggjur af, vegna þess að það virtist í fínu standi, er breytt í grundvallaratriðum á lokaklukkustundum þessa þings veldur það þeim ugg að það geti gerst við hvert einasta mál sem veldur okkur engum áhyggjum þegar við erum að byrja þetta ferli. Það gæti orðið til þess að við í stjórnarandstöðunni þurfum að segja að við höfum áhyggjur af öllum málum sem virðist meira að segja vera samkomulag um og virðist vera sátt um vegna þess að þeim gæti verið breytt í grundvallaratriðum á síðustu klukkustundunum án teljandi samráðs eða samkomulags og án þess að reynt væri að leita sátta.

Mér finnst mjög leitt að við séum að eyða lokamínútunum og kannski síðustu klukkustundinni á þessu þingi í mál sem hefði alveg getað endað farsællega fyrir alla hlutaðeigendur. Ef við hefðum vitað fyrir fram að áætlunin væri að breyta þessu svona mikið hefðum við getað átt samtal um það.

Ég vildi bara koma hingað upp til að lýsa þessum vonbrigðum mínum hér í kvöld.