149. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2018.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:04]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Kæru Íslendingar. Nú er að hefjast nýtt þing eftir sumarleyfi. Það eru í mínum huga forréttindi fyrir karl eins og mig að hafa fengið tækifæri til að setjast á Alþingi. Ég hef verið verkamaður allan minn starfsaldur og fylgst með stjórnmálum í gegnum fjölmiðla og tekið hina pólitísku umræðu sem hinn nafnlausi verkamaður. Hinir nafnlausu verkamenn eru einmitt mínar hetjur.

Þegar ég er spurður hvernig mér líki djobbið er svarið oft: Ja, þetta er svona eins og að vera á stóru skipi með þungan farm með tógið í skrúfunni og erfitt að halda stefnunni. En þó silast skipið áfram. Pólitíkin getur verið erfið tík á stundum. Miskunnarlaus og óvægin. En hið háa Alþingi er málstofa þar sem við stjórnmálamennirnir tökumst á um málefni og eigum að gera það. Þetta vill stundum gleymast.

Gríðarlegar tækniframfarir hafa átt sér stað á nánast öllum sviðum síðustu áratugina. Um leið hefur heimurinn minnkað og gert okkur jarðarbúa að nágrönnum hver annars þótt höf og fjöll skilji lönd að. Nýrri heimsmynd fylgja bæði kostir og áskoranir sem þarf að mæta með yfirvegun. Vegna hnattstöðu Íslands verða breytingar oft á undan í löndum sem við berum okkur saman við og eigum við að nýta okkur reynslu þeirra.

En hvernig líður okkur Íslendingum sem þjóð? Mín upplifun, tæpum áratug eftir efnahagshrun, er að oft sé grunnt á því góða. Hefur okkur stjórnmálamönnunum gengið misjafnlega vel að vinna úr afleiðingum hrunsins. Allt of mikið er alið á óánægjunni í staðinn fyrir að telja kjark í þjóðina því að traust til stjórnmála er allt of lítið og það þarf að efla.

Lánakjör hér á landi eru léleg. Margar lánastofnanir eru andlitslaus skrímsli sem oft er erfitt að mæta. Fólk er ekki lengur manneskjur í augum hinna ýmsu stofnana heldur tölur eða númer á blaði.

Ég verð að spyrja út í stefnu stjórnvalda í samgöngumálum. Á að viðhafa bútasaum áfram eða á að ráðast í alvörubætur á vegakerfi sem er löngu sprungið, m.a. vegna mikillar aukningar bíla á þjóðvegum landsins? Hæstv. samgönguráðherra hefur þar til nýlega talað á móti hugmyndum um hugsanlega vegtolla. Ráðherrann er nú undanfarnar vikur farinn að tala um breyttar forsendur og að skoða þurfi málið í einstaka verkefnum. Er kannski togstreita um stefnu í þessum málum innan ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnar hinna breiðu skírskotana? Oft var þörf en nú er nauðsyn að þjóðin fái að sjá og heyra hver stefnan er í samgöngumálum. Ef við viljum byggja upp á landsbyggðinni hljóta góðar samgöngur að vera skynsamleg og arðbær fjárfesting.

Í sjávarútvegsmálum er það að frétta að samþjöppunin í greininni hefur aldrei verið meiri en nú. Útgerðum með aflahlutdeild hefur fækkað frá því árið 2005 úr 946 útgerðum í 382 á þessu ári. Staðan er grafalvarleg en um fiskveiðistjórnarkerfið þarf að nást sátt. Umræðan um kerfið þarf að vera æsingalaus og skynsamleg. Ég bind vonir við að frumvarp sem leggja á fram á fyrstu dögum þingsins um auðlindagjöldin verði til þess að litlar og meðalstórar útgerðir geti séð fram á raunhæfan rekstrargrundvöll. Sáttin um kerfið mun alltaf grundvallast á því að útgerðir af öllum stærðum geti þrifist og hagsmunir alls landsins fari saman með hagsmunum útgerðarinnar.

Ég tók þátt í sviðsmyndagreiningu um framtíð landbúnaðar í sumar á Hótel Sögu. Þarna var fólk úr ýmsum greinum er tengjast landbúnaði. Þetta var skemmtileg vinna um framtíð landbúnaðar miðað við ýmsar forsendur sem gefnar voru. Íslenska matvælaframleiðslu verðum við Íslendingar að standa vörð um. Það munum við í Miðflokknum gera.

Heilbrigðismálin eru mikið í brennidepli, aldrei þessu vant — eða hvað? Ef við ætlum að fara vel með fjármuni til heilbrigðismála eru stórauknar forvarnir sennilega eitt það skynsamlegasta sem hægt er að gera. Fíknisjúkdómar sem oft leiða til geðraskana, auk krabbameins, æða- og hjartasjúkdóma, eru okkur dýrir. Það að hjálpa fólki í vímuefnavanda er góður bissness, hæstv. heilbrigðisráðherra. Til að minnka lífsstílssjúkdóma er hægt að efla forvarnir þar sem fólk lærir að lifa með og oft læknast ef það fær rétta leiðsögn. Þetta kallast á stundum annars stigs forvörn. Svona mætti áfram telja.

Ég hef beðið um sérstaka umræðu um forvarnir hér í þingsal sem verður vonandi skref í þá átt að alvöruforvarnastefna sé mótuð og fjármögnuð. — Góðar stundir.