149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2019 sem er 1. mál 149. löggjafarþings. Ég held að ég verði að segja í upphafi máls míns að það er heldur knappt skammtað tímanum til umræðunnar en ég held engu að síður að með því nýja fyrirkomulagi sem við höfum tekið upp á undanförnum árum, þar sem ráðherrar koma og svara hver fyrir sinn málaflokk, höfum við þróað umræðuna um fjárlögin til betri vegar.

Fjárlagafrumvarpið kemur í kjölfarið á frumvarpi sem var afgreitt við mjög óvenjulegar aðstæður undir lok síðasta árs. Þar voru stigin fyrstu skrefin til að tryggja framgang stefnu ríkisstjórnarinnar en fjárhagslegar útlínur hennar voru síðan nánar útfærðar í fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 síðastliðið vor. Þetta frumvarp sem hér er lagt fram er nánari útfærsla á þeim pólitísku áherslum sem birtust í áætluninni og einkenndust öðru fremur af því leiðarstefi ríkisstjórnarinnar að samfélagið allt njóti góðs af yfirstandandi hagvaxtarskeiði og að treysta eigi til framtíðar samfélagslegan stöðugleika, velsæld og lífsgæði.

Samkvæmt frumvarpinu verður afgangur á rekstri ríkissjóðs 1% af landsframleiðslu eða sem nemur 29 milljörðum kr., sem er í samræmi við afkomumarkmið fjármálastefnunnar og fjármálaáætlunarinnar, en rekstur ríkissjóðs hefur verið jákvæður síðustu ár þrátt fyrir verulegan vöxt útgjalda, sérstaklega til heilbrigðis-, félags-, trygginga- og húsnæðismála.

Virðulegi forseti. Efnahagslíf undanfarinna ára hefur einkennst af þróttmiklum vexti. Þar hefur uppgangur ferðaþjónustunnar skipt sköpum og ýmis afleidd starfsemi notið góðs af fjölgun ferðamanna. Hefðbundnari atvinnugreinar hafa stutt við vöxtinn og einnig skipar hátækni- og hugverkadrifinn iðnaður stærri sess í landsframleiðslunni.

Nú eru komnar fram á sjónarsviðið ýmsar vísbendingar um að hámarkinu hafi verið náð. Spár benda til þess að dragi úr vexti og að þjóðarbúskapurinn fái tækifæri til að leita nýs jafnvægis. Þrátt fyrir að staða ríkissjóðs sé sterk og viðnámsþróttur ríkisfjármálanna hafi aukist í kjölfar mikillar skuldalækkunar og vaxtar þjóðartekna er ljóst að útgjaldavöxturinn til framtíðar getur ekki orðið eins mikill og hann hefur verið undanfarin ár. Ekki má missa sjónar á því að afkoma ríkissjóðs er næm fyrir ytra umhverfi og gangi atvinnulífsins. Því skiptir miklu að fjármálastefna hins opinbera einkennist af varfærni og festu og til mikils að vinna að gera það sem hægt er til styrkja félagslegan og efnahagslegan stöðugleika.

Í því sambandi má nefna að búið hefur verið í haginn fyrir framtíðina með endurfjármögnun og uppgreiðslu skulda. Undanfarin ár hafa einkennst af góðu atvinnuástandi, lítilli verðbólgu, miklum hagvexti og ört batnandi lífskjörum. Kaupmáttur hefur aukist um 25% á síðustu fjórum árum og áfram er til mikils að vinna að verja þá stöðu, þann mikla árangur, með áherslu á stöðugleika, með lægri verðbólgu og skynsamlegri launaþróun þar sem horft er til þess hver framleiðniaukningin er í landinu, allt það drifið áfram af samkeppnisgreinum með aukinni verðmætasköpun.

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpinu er gert fyrir því að hagkerfið vaxi um nærri 3% í ár ofan á verulega hagvaxtaraukningu síðustu ár. Spár benda til rúmlega 2,5% vaxtar á ári næstu árin. Þetta mun ganga eftir ef allar undirliggjandi breytur halda sér, allar helstu forsendur, ef engin óvænt áföll verða og má segja að spáin um 2,5% vöxt á næstu árum sé nokkuð nærri langtímavaxtargetu hagkerfisins.

Þrátt fyrir að hægist á vexti er hann enn umtalsverður og talsvert meiri en mörg þróuð hagkerfi í Evrópu geta vænst. Staða efnahagsmála telst því góð á flesta mælikvarða eins og endurspeglast í mati lánshæfisfyrirtækja á ríkissjóði, en lánshæfiseinkunn Íslands hefur hækkað jafnt og þétt síðustu ár og er nú metin í A-flokki fyrir ríkissjóð hjá helstu lánshæfisfyrirtækjum. Þær jákvæðu breytingar á lánshæfi ríkissjóðs hafa ekki gerst af sjálfu sér heldur eru þær afrakstur agaðrar efnahagsstjórnar þar sem lögð hefur verið áhersla á að nýta hagfellt efnahagsástand til að greiða niður skuldir. Þannig hafa einskiptistekjur og tímabundnar tekjur ríkissjóðs, eins og arðgreiðslur og stöðugleikaframlög, en einnig hefur söluandvirði hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum verið nýtt til að lækka skuldir og greiða inn á lífeyrisskuldbindingar sem hefur bætt sjálfbærni ríkisfjármálanna til langs tíma litið. Hafa heildarskuldir með þeim hætti lækkað um 658 milljarða kr. á sex árum og hlutfall þeirra af landsframleiðslu lækkað úr 86% þegar það var hæst árið 2011 í 31% eins og því er spáð undir lok þessa árs. Frá miðju ári 2017 til miðs árs 2018 lækkuðu skuldir um 88 milljarða kr. en það samsvarar því að skuldir hafi lækkað um 10 millj. á klukkustund. Gangi áætlanir eftir mun hið opinbera, ríki og sveitarfélög, uppfylla skilyrði skuldareglu laga um opinber fjármál í lok næsta árs. Vegna þeirra aðgerða er útlit fyrir að hrein vaxtagjöld verði um 26 milljörðum lægri árið 2019 en árið 2011. Þetta eru hrein vaxtagjöld.

Hæstv. forseti. Gott atvinnuástand, hækkandi eignaverð og miklar launahækkanir hafa bætt fjárhagsstöðu flestra heimila verulega. Lífskjör hafa líklega aldrei verið betri á Íslandi, eins og kemur fram í nýútkominni skýrslu um stöðu efnahagsmála í aðdraganda kjarasamninga. Launahækkanir og hærra mótframlag launagreiðenda í lífeyrissjóð hefur hins vegar skert samkeppnisstöðu atvinnulífsins í erlendum samanburði. Það er ljóst að svigrúm til launahækkana mótast af því og nauðsynlegt er að samkeppnisgreinarnar verði þær sem leiði launaþróun næstu ára. Lykillinn að aukinni samkeppnishæfni er ekki í gegnum lægra gengi og þar með lakari kaupmátt almennings, eins og svo oft hefur verið reynt í gegnum tíðina, heldur eigum við að einbeita okkur að öðru verkefni sem er að bæta samkeppnishæfnina með meiri framleiðni og öflugri verðmætasköpun.

Hið opinbera getur lagt lóð á vogarskálarnar til þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika sem stutt getur síðan aftur við sátt á vinnumarkaði. Ríkisstjórnin hefur þegar tekið mikilvæg skref í þá átt með yfirlýsingu sinni frá febrúar á þessu ári og aðgerðum í kjölfarið sem hafa snúið m.a. að hækkun greiðslna úr Ábyrgðasjóði launa, greiðslna í fæðingarorlofi og atvinnuleysistryggingum.

Fyrir liggur að á komandi vetri losna fjölmargir kjarasamningar. Ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á samtal og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, enda ljóst að niðurstaða samninga mun hafa mikil áhrif á efnahagsumhverfið. Hluti af því samtali hefur snúist um hlutverk ríkisins í kjaraviðræðum og hefur þá einkum verið horft til samspils skattkerfis og bótakerfa, auk húsnæðismála. Ljóst er að svigrúm til launahækkana er takmarkað, enda hefur launaþróun undanfarinna ára verið hröð og hækkanir launa komnar að mörkum þess sem viðráðanlegt er talið, eins og m.a. er rakið í nýútkominni skýrslu um þau efni. Áherslur kjaraviðræðna munu því snúast að nokkru leyti um ýmsa fleiri þætti en launalið samninganna. Í ljósi þessa og þess að í stjórnarsáttmála er skýrt kveðið á um vilja til að lækka álögur er samhliða frumvarpi til fjárlaga lagt til að gripið verði til aðgerða sem miða að því að liðka fyrir samningum á vinnumarkaði.

Í fyrrgreindri yfirlýsingu frá febrúar lýsti ríkisstjórnin því yfir að í tengslum við endurskoðun kjarasamninga á almennum markaði yrði hafin endurskoðun á tekjuskattskerfinu með áherslu á lækkun skattbyrði og mögulegar breytingar á fyrirkomulagi persónuafsláttar og samspil við bótakerfi sem ætlað er að styðja við tekjulægri hópa. Þær áherslur komu fram í fjármálaáætlun áranna 2019–2023, en þar var gert ráð fyrir að álögur lækkuðu sem svarar til 1 prósentustigs í lægra þrepi tekjuskatts. Til að ná settum markmiðum um að skattkerfisbreytingar þjóni sérstaklega hagsmunum hinna tekjulægri er lagt til að persónuafsláttur hækki um 1 prósentustig umfram lögbundna 12 mánaða hækkun vísitölu neysluverðs á árinu 2019. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því í fjárlögum að laga það ósamræmi sem hefur verið í vísitölutengingum á milli persónuafsláttar og efra þreps tekjuskatts eða fjárhæðarmarka neðra og efra þreps. Við því er nú brugðist með því að festa mörk efra þrepsins, fjárhæðarmörkin, við vísitölu verðlags líkt og gildir um persónuafslátt. Við það verður jafnræði milli ólíkra tekjuhópa gagnvart skattkerfinu meira. Með slíkum aðgerðum hækka heildarráðstöfunartekjur einstaklinga um 1,7 milljarða kr. á næsta ári.

Samhliða hækkun persónuafsláttar og tengingu þrepamarka efra skattþreps við nýja vísitölu verða barnabætur hækkaðar verulega, eða sem svarar til 1,6 milljarða kr. borið saman við fjármálaáætlunina. Það felur í sér 17% hækkun milli áranna 2018 og 2019. Samsvarandi hækkun á vaxtabótum nemur um 13%. Auk hækkunar fjárhæða og viðmiðunarmarka skerðingar barnabóta er í fjárlögum gert ráð fyrir nýju þrepi á skerðingar á barnabótum sem er ætlað að tryggja að áhrif hækkana í barnabótakerfinu skili sér fyrst og fremst til tekjulágra og lægri millitekjuhópa.

Þá er í fjárlagafrumvarpinu lagt til að tryggingagjald lækki í ársbyrjun 2019 um 0,25 prósentustig og aftur um 0,25 prósentustig í ársbyrjun 2020. Áhrifin af þeim tveimur skrefum nema um 9,3% lækkun á almenna tryggingagjaldinu.

Með breytingum á samspili skatta og bóta einstaklinga sem og tryggingagjaldi eru álögur lækkaðar á launþega og launagreiðendur og tryggt að ráðstöfunartekjur aukist. Háir skattar á launþega eru líklegir til þess að kalla á kröfur um hærri laun og háir skattar á launagreiðendur draga úr getu þeirra til að greiða hærri laun. Samningar um kaup og kjör ákvarða hvernig þeim byrðum er deilt, en með þessu útspili stjórnvalda er með ótvíræðum hætti dregið úr álögum á launþega og launagreiðendur og liðkað þannig fyrir kjarasamningum.

Virðulegi forseti. Frumvarp og tekjufrumvarp fyrir árið 2019 marka frekari skref með auknum framlögum til áherslumála ríkisstjórnarinnar. Framlög til heilbrigðismála verða aukin að raunvirði um 6% á árinu 2019, eða um 12,6 milljarða kr., og framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála um 13,3 milljarða kr., sem jafngildir 7% hækkun að raunvirði. Sú aukning skýrist að stórum hluta af 4 milljarða kr. framlagi vegna áformaðra kerfisbreytinga í almannatryggingum til að bæta kjör öryrkja. Því til viðbótar aukast útgjöldin um 2,3 milljarða kr. vegna hækkunar á atvinnuleysisbótum frá og með 1. maí sl., í samræmi við áðurgreinda yfirlýsingu, þannig að þær nemi 90% af lágmarksatvinnutekjum. Þá eru framlög til samgöngu- og fjarskiptamála aukin verulega á árinu 2019 en framlögin verða um 43,6 milljarðar á næsta ári.

Í fjárlögum ársins 2019 má einnig sjá að áfram er lögð áhersla á fjárfestingar í innviðum og ber þar hæst aukinn kraft í uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut en til hennar verður varið alls 7,2 milljörðum kr. á næsta ári, auk þess sem átak í uppbyggingu á vegakerfinu heldur áfram líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Af öðrum stærri fjárfestingarverkefnum má nefna fyrstu framlög til kaupa á nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, sem gert er ráð fyrir að verði afhentar árið 2022, auk uppbyggingar Húss íslenskunnar.

Alls aukast heildargjöld ríkissjóðs milli ára um 7% að nafnvirði, eða um ríflega 55 milljarða kr., en á móti er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs aukist um tæplega 52 milljarða kr. Ljóst er að eftir samdrátt áranna eftir hrun fjármálakerfisins reyndist nauðsynlegt að verja verulega auknum fjármunum til nánast allra málefnasviða ríkisins. Vöxtur ríkisútgjaldanna getur þó aldrei verið markmið í sjálfu sér. Mestu skiptir að fjármagnið sé nýtt sem best þannig að starfsemin skili sem mestum árangri og gæðum fyrir landsmenn, ávallt fyrir sem minnst fjármagn. Í fjármála- og efnahagsráðuneytinu er nú verið að leggja grunn að verklagi um endurmat útgjalda. Hér er um að ræða kerfisbundna greiningu á grunnútgjöldum tiltekinna verkefna eða málaflokka og því sem hefur valdið þróun þeirra útgjalda. Slík aðferðafræði hefur gefist vel annars staðar og eru mörg dæmi um að menn hafi með slíku endurmati séð tækifæri fyrir nýja forgangsröðun, betri nýtingu og endurskipulag í ríkisfjármálunum á einstaka sviðum.

Virðulegi forseti. Efnahagsuppbygging síðustu ára hefur skilað miklum árangri. Afgangur af viðskiptajöfnuði og af afkomu hins opinbera endurspeglast í auknum þjóðhagslegum sparnaði en auk þess sem skuldir ríkissjóðs hafa verið lækkaðar hafa háar fjárhæðir verið greiddar inn á lífeyrisskuldbindingar, eins og hefur verið komið inn á. Þær aðgerðir auka sjálfbærni ríkisfjármálanna til langs tíma litið og koma í veg fyrir að núlifandi kynslóðir taki út lífskjör á kostnað þeirra sem á eftir koma. Áformuð stofnun Þjóðarsjóðs með lagasetningu á þessu þingi, sem ætlað er að safna upp arði af orkuauðlindum sem eins konar varasjóði til að mæta stórum og ófyrirséðum áföllum, getur stutt við stefnu um sjálfbærni opinberra fjármála sem og skynsamlega ráðstöfun arðs af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Mikilvægt er nú, þegar gera má ráð fyrir að í sljákki eftir mikinn vöxt síðustu ára, að áfram sé tryggð festa og varfærni í stjórn opinberra fjármála. Með þeim orðum legg ég til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar.