149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að í andsvörum á eftir mér verði fulltrúar stjórnarflokkanna af því að ef væri nú alvöruaðskilnaður á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds þá myndu stjórnarflokkarnir eða þingmenn stjórnarflokkanna væntanlega líka vilja spyrja hæstv. fjármálaráðherra.

Mig langaði að velta því aðeins upp hvað gerist ef afkomumarkmiðin nást ekki. Undanfarið hefur hagvaxtarspá sem gerð hefur verið farið lækkandi, raunin hefur verið lægri að undanförnu. Hvað er að gerast og hvaða aðgerðir frestast ef við náum ekki þessum afkomumarkmiðum og þurfum að slá einhverju á frest til þess að ná þeim afkomumarkmiðum sem eru sett í fjármálastefnu?

Fjármálaráðherra talaði hérna um skuldaviðmiðin og hvernig við erum að stefna niður í 20% skuldir, þar er ekki tekið til lífeyrisskuldbindinga. Ég hef einnig heyrt í nefndarvinnu talað um að nauðsynlegt sé að halda ákveðnu skuldaviðmiði upp á aðgengi markaða og því um líkt. Mig langar til að fræðast aðeins um það, hvort þau skilaboð sem við fáum í nefndunum um þetta skuldaviðmið samræmist því 20% skuldaviðmiði sem við erum að stefna að.

Í fjárlagafrumvarpinu er einnig búið að breyta fullt af aðgerðum og sumum markmiðum meira að segja, miðað við hvernig fjármálaáætlunin var. Enn er ekkert kostnaðarmat á aðgerðunum. Það lítur þá þannig út að ríkisstjórnin segir: Við viljum 19 milljarða og ætlum að gera þennan langa lista af aðgerðum. En við vitum ekkert um það, við vitum ekkert hvort það sé raunhæft mat að það þurfi 19 milljarða fyrir þessar aðgerðir.

Mig langar til að ítreka eftir betrumbótum hvað þetta varðar í fjárlagagerðinni.