149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:25]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir yfirferð um fjárlagafrumvarpið í framsöguræðu hans. Ég staldra við lokaorðin þar sem hann víkur að áformum um stofnun svokallaðs þjóðarsjóðs, orð sem hefur heyrst nokkrum sinnum áður, m.a. í tengslum við fjármálaáætlun fyrr á árinu. Ef rétt er skilið er gert ráð fyrir að í þennan sjóð renni arður af orkuauðlindum. Það er þess vegna viðbúið að fari svo fram sem horfir að í þennan sjóð gætu á tiltölulega skömmum tíma safnast mjög umtalsverðar fjárhæðir sem jafnvel gætu hlaupið á tugum eða hundruðum milljarða.

Með því að hreyfa þessu ítrekað er með öðrum orðum verið að reifa hugmyndir um það sem mætti kalla umtalsverða skipulagsbreytingu í fjármálum ríkisins. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að upplýst verði nánar en gert hefur verið hvaða fyrirætlanir eru um þennan sjóð.

Hvaða aðstæður gætu leitt til útgreiðslna úr honum og hverjir gætu notið slíkra útgreiðslna? Hvernig verður háttað samskiptum ríkissjóðs og þjóðarsjóðs? Hvernig verður háttað stjórn þessa sjóðs? Er verið að endurreisa sjóð af því tagi sem verðjöfnunarsjóðir sjávarútvegsins voru á liðinni öld en voru lagðir af? Hver á að vera fjárfestingarstefna sjóðsins? Hvaða verkefnum á sjóðurinn að sinna sem ríkissjóður er ekki fær um?