149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:51]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þessi málflutningur bera vott um það hvernig Sjálfstæðismenn nálgast oft umræðuna um atvinnulífið. Þessi grímulausa sérhagsmunagæsla varðandi ákveðnar atvinnugreinar er svo augljós, hvort sem það er sjávarútvegurinn eða ferðaþjónustan núna.

Hið almenna atvinnulíf er í efra þrepinu. Það er hið almenna þrep fyrir atvinnulífið, ekki ferðaþjónustuna. Það er það sem ég er að benda á. Ég er að segja að kannski voru það mistök að taka ekki það skref á sínum tíma. Ég er alveg til í að skoða aðrar leiðir; komugjöld, brottfarargjöld, hærri gistináttaskatt eða hvernig sem það væri. Ég held að það væru almannahagsmunir að auka tekjur af erlendum ferðamönnum. Að sjálfsögðu viljum við hafa öflug ferðaþjónustufyrirtæki en ég vil að þau leggi meira í hina sameiginlegu sjóði. Flokkur hv. þingmanns hefur sömuleiðis kallað eftir auknum ríkisútgjöldum. 100 milljarðar, stendur á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins, eiga að fara í innviðauppbyggingu. Mér finnst stundum eins og Sjálfstæðismenn haldi að peningar vaxi á trjánum. Þeir vaxa ekki á trjánum, þeir verða til í atvinnulífinu. (Gripið fram í.) Til að ná í peningana þarf að skattleggja. Frjálslyndir vinstri menn eru ekkert feimnir að tala um skattahækkanir. Þær eru ekki bannorð í mínum orðaforða eins og hjá sumum, ólíkt hægri mönnum. Þeir lofa útgjöldum, þora ekki að nefna orðið skattahækkun og eru alltaf að hygla einhverjum sérhagsmunum, hvort sem það er landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn eða einstök ferðaþjónustufyrirtæki. Af hverju er ekki litið til almennings? Menn eru kosnir hér til að gæta hagsmuna almennings. (ÓBK: Komdu með nýtt innlegg í umræðuna.) Þetta er nákvæmlega það innlegg sem skiptir máli, tryggjum sanngjarna, réttláta og jafna skatta til að standa við stóru orðin okkar um að spítalinn þurfi meiri pening, skólarnir þurfi meiri pening, lögreglan þurfi meiri pening.

Hvernig ætlum við að standa við þetta ef þingmenn eru ekki tilbúnir að taka umræðuna um skattamál? Af hverju eru skattar eitur í ykkar beinum? Ég skil það ekki. Skattar — samkeppnishæfustu samfélög í heiminum eru Norðurlöndin. Þar eru ekki lágir skattar en þar er öflugt velferðarkerfi, jafnt menntakerfi o.s.frv. En það kostar. Við fjármögnum þetta með sameiginlegum sjóðum okkar (Forseti hringir.) og við eigum ekki að fara að taka enn eina atvinnugreinina í fangið, hvort sem það er ferðaþjónustan eða aðrar greinar. Ég kæri mig ekkert um að skipta mér af landbúnaði og sjávarútvegi á vettvangi stjórnmálanna og nú óttast ég að við munum fá hluta af ferðaþjónustunni í fangið og það er bara slæm þróun. Við eigum ekki að skipta okkur af atvinnulífinu nema með almennum hætti og það er það sem ég er að tala fyrir hér.