149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:03]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Fjárlagafrumvarpið sem hér er lagt fram til 1. umr. er útgjaldafrumvarp og í því er ekki að finna neina ráðdeildarsemi í fjármálum ríkisins, því miður. Forsendur frumvarpsins eru byggðar á því að hér verði hagvöxtur upp á 2,5% næstu árin. Forsendurnar eru óraunsæjar og þær geta breyst hratt.

Þetta er viðurkennt í frumvarpinu þótt ekki sé farið eftir því. Í frumvarpinu er athyglisverður en stuttur kafli á bls. 91 sem ber yfirskriftina: Efnahagslegir óvissuþættir. Þar kemur m.a. fram að 40% stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins telji að aðstæður í atvinnulífinu muni versna á næstu sex mánuðum og aðeins 7% telji að þær muni batna.

Þrátt fyrir aðvaranir úr ýmsum áttum er enn bætt í ríkisbáknið og ríkisútgjöldin í hæstu hæðum. Fyrirhyggja til framtíðar er lítil sem engin. Afgangur af ríkisrekstri er áætlaður um 1% af landsframleiðslu, sem er ekki há upphæð í ljósi þess mikla uppgangs sem hefur ríkt í efnahagslífinu. Það á að búa í haginn fyrir mögru árin svo að ekki þurfi að koma til niðurskurðar og skattahækkana ef hlutirnir fara á verri veg.

Verkalýðshreyfingin er ekki jákvæð gagnvart þessu frumvarpi og það er ekki gott innlegg inn í komandi kjaraviðræður. Það sem átti vera tromp ríkisstjórnarinnar, eins og hækkun persónuafsláttar, hækkun barnabóta og vaxtabóta, er engan veginn sá kaleikur sem gefið er í skyn. Þetta er svipað og gerist stundum með útsölur í verslunum á Íslandi, verðið er hækkað skömmu fyrir útsölu og svo lækkað á útsölunni þannig að almenningur heldur að hann sé að gera góð kaup. Mörg þúsund Íslendingar hafa ekki fengið barna- og vaxtabætur undanfarin ár vegna þess að skerðingar- og niðurfellingarmörk hafa staðið í stað árum saman.

Um skuldamál ríkisins vil ég segja að jákvætt er að áfram sé stefnt að lækkun skulda, enda væri annað glapræði við þær jákvæðu aðstæður sem hafa ríkt og ríkisstjórnin fengið í arf. Það er hins vegar engin innstæða fyrir þeirri miklu útgjaldaaukningu sem birtist okkur í frumvarpinu. Boðuð lækkun tryggingagjalds er jákvætt skref en Miðflokkurinn hefði viljað sjá frekari lækkun. Við verðum að búa vel að fyrirtækjunum sem færa landsmönnum atvinnu. Lækkunin skiptir miklu máli fyrir þau og liðkar fyrir komandi kjaraviðræðum.

Hér á eftir vil ég koma sérstaklega inn á nokkra þætti sem birtast okkur í frumvarpinu og ég tel mikilvæga en það eru vaxtabæturnar, barnabæturnar, húsnæðisstuðningurinn, kolefnisgjaldið og að lokum ríkisbáknið.

Tímans vegna er ekki hægt að koma öllu að en aðra þætti eins og heilbrigðismálin, landbúnaðinn, menntamálin, samgöngur o.fl. mun ég ræða þegar umræðunni verður fram haldið og fagráðherrar verða til svara. Ég hefði hins vegar kosið og talið eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra væri viðstaddur umræðuna á morgun með fagráðherrum.

Ég kom inn á vaxtabætur í andsvari áðan. Ég vil aðeins bæta við það að hin mikla hækkun á húsnæðisverði undanfarin ár hefur étið upp vaxtabæturnar, eins og við þekkjum og ég nefndi. Einn helsti skerðingarþáttur vaxtabóta er hækkun á verðmæti eignar en aðrir þættir hafa þar einnig áhrif, eins og hækkun launa og fjármagnstekjur. Líkt og ég nefndi í andsvarinu áðan hafa vaxtabætur lækkað um rúma 8 milljarða frá árinu 2010 og þeim fjölskyldunum sem eiga rétt á vaxtabótum fækkað um rúm 30 þús. Það eru mjög háar tölur og sýna að kerfið er ónýtt. Það þarf að breyta úthlutunarreglunum í kerfinu þannig að það þjóni þeim sem þurfa mest þurfa á því að halda. Niðurstaðan er þessi: Bótagreiðslur til húseigenda hafa hríðlækkað á sama tíma og skattar á húseigendur hafa hækkað umtalsvert.

Aðeins varðandi skerðingarmörkin. Ég nefndi og hef lagt áherslu á að þeim verði breytt. Ég get ekki séð að það standi í frumvarpinu svo neinu nemi. Hækkun viðmiðunar á t.d. nettóeign um 10%, eins og til stendur að gera, er eins og að skvetta vatni á gæs. Það verður að segjast eins og er. Ísland er með mestu hækkun húsnæðisverðs í heiminum, eða 70% á síðastliðnum fimm árum, margfalt á við kaupmátt landsmanna.

Við búum við vaxtabótakerfi sem gerir ekki ráð fyrir hærra húsnæðisverði og hærri vaxtagjöldum. Það sjá allir að slíkt kerfi er gagnslaust. Hækkun vaxtabóta eins og hún birtist okkur í þessu frumvarpi er því í raun tálsýn.

Á bls. 99 í frumvarpinu er þess getið að gert hafi verið ráð fyrir því að breytingar á skattkerfinu myndu lækka tekjur ríkissjóðs um 3,5 milljarða kr. Síðan er ákveðið að hækka persónuafsláttinn en það kostar 1,7 milljarða. kr. Eftir standa 1,8 milljarðar og af því fara væntanlega 1,6 milljarðar í hækkun barnabóta, ef ég skil það rétt, en þetta er reyndar ekki skýrt fram sett í frumvarpinu.

Það má velta því fyrir sér hvort komið hafi til álita að hækka persónuafsláttinn sem nemur þeim 3,5 milljörðum. Spurningin er hvort það hefði gagnast fleirum, einnig barnafólki, og kannski verið markvissari aðgerð. Við þekkjum það að sífellt færri fá barnabætur og spurning hvort við verðum ekki komin á sama stað eða í sama farið í þeim efnum innan skamms þrátt fyrir hækkun bótanna.

Ekki verður séð að ríkisstjórnin taki á húsnæðisvandanum sem ríkir. Það sem þarf fyrst og fremst að gera er að auka húsnæðisframboð. Gríðarlegar hækkanir á húsnæðisverði á síðustu árum eru fyrst og fremst komnar til vegna skorts á húsnæði. Lítið framboð þýðir hærra verð eins og við þekkjum. Íbúðum á markaði fjölgar ekki við hærri bætur. Það þarf að ráðast gegn rótum vandans og nóg framboð á húsnæði þýðir lægra verð.

Ég vil koma stuttlega inn á kolefnisgjaldið. Þar er um háar fjárhæðir að ræða. Tekjur af gjaldinu eru áætlaðar 5,9 milljarðar á árinu 2019 sem er hækkun um 10% og var þó hækkunin á þessu ári ærin. Ríkisstjórnin er greinilega í herferð gegn hinum venjulega bifreiðaeiganda sem ekki hefur efni á því að kaupa rafmagnsbifreið. Það á ekki síst við um þá sem búa á landsbyggðinni þar sem notkun rafmagnsbifreiða er mjög takmörkuð. Auk þess má ekki gleyma því að rafmagnsbílar henta alls ekki öllum og þá má velta því fyrir sér hvort að hækkuninni hafi tiltæk áhrif. Vitum við það með vissu eða mun aðgerðin einungis hækka skatta á notendur bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, eins og olíu og bensíni? Er þetta ekki bara enn einn skatturinn á fjölskyldufólk? Hefur ráðherra látið skoða hvort skatturinn bitni sérstaklega á fjölskyldum? Það væri fróðlegt að fá að vita. Einnig þurfum við að fá að vita hvaða áhrif hækkun kolefnisgjaldsins hefur á heildarútgjöld heimilanna. Það eru upplýsingar sem þurfa að liggja fyrir að mínu viti. Ég er ansi hræddur um að þetta bitni verst á tekjulægstu hópunum sem hafa ekki efni á því að fá sér nýjan bíl sem losar minna. Þá er spurningin: Er ekki verið að skattleggja tekjulægsta hópinn sem á öðrum stað í fjárlagafrumvarpinu virðist vera ætlað að styðja?

Alltaf er það ríkissjóður sem kyndir undir hækkun vísitölu neysluverðs. Boðaðar eru fjölmargar gjaldahækkanir ríkissjóðs í frumvarpinu. Bifreiðagjaldið, sem er ekkert annað en eignarskattur, verður t.d. hækkað og gleymum því ekki að gjaldið er lagt á hvort sem bifreið er hreyfð úr hlaði eða ekki.

Herra forseti. Ég tel að það sé aðhaldsleysi í þessu fjárlagafrumvarpi þegar kemur að ríkisstofnunum og ríkisstjórninni, einmitt hjá þeim sem eiga að sýna gott fordæmi. Ríkisbáknið heldur áfram að þenjast út á vakt Sjálfstæðisflokksins og það er greinilegt að sósíalisminn er smitandi innan ríkisstjórnarinnar. Ég hefði frekar kosið að við hefðum sett eitthvað af fjármununum í að reyna að laga vaxtabótakerfið, þannig að það gagnaðist þeim sem þurfa á því að halda.

Svo er það ríkisstjórnin sjálf sem slær met í eyðslunni með alla sína aðstoðarmenn og 636 milljónir í launakostnað, hækkun um 175 milljónir milli ára. Hækkun til sendiráða nemur 0,5 milljörðum milli ára svo dæmi sé tekið og áfram mætti lengi telja. Agi er forsenda velferðar, það á við um ríkisfjármálin eins og annað í lífinu. Frumvarp er agalaust. Þetta er vegferð án fyrirhyggju.