149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:22]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir andsvarið. Ég held að málið hljóti að snúast um það að komast að góðu samkomulagi um að setja fjárlögin fram á staðli hinna opinberu fjármála en að efnahagslegar greiningar sem gætu verið fylgiskjal eða með öðrum hætti væru gerðar á grundvelli GFS-staðalsins svonefnda og þannig væntanlega sparað mikla vinnu.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að mér kom örlítið á óvart að heyra að það er eins og hæstv. ráðherra geri enn ráð fyrir því að nota fé úr varasjóðnum í þessar framkvæmdir. Ég taldi mig hafa skilið það svo að fallið hefði verið frá þeim áformum og að umræddar framkvæmdir yrðu ákvarðaðar eins og efni stæðu til, að réttu lagi, í fjárlögum eða í fjármálaáætlun. En ef til vill getur ráðherra varpað skýrara ljósi á það atriði.

Ég sé að ég hef örlítinn tíma. Ég ætla að leyfa mér að nota hann til að vekja athygli á því að þær tekjur af kolefnisgjaldinu sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu á bls. 113, 550 millj. kr., sú 0,05% hækkun á gjaldinu mun kalla með grófri áætlun á allt að 1 milljarð í hækkun á verðtryggðum íbúðalánum. Það eru því 500 millj. í ríkissjóð en hækkun á íbúðalánum upp á 1 milljarð. Fyrir því eru heimilin algerlega varnarlaus. Fjármálastofnanir fá þarna himnasendingu, eignast kröfur á heimilin upp á 1 milljarð. Þær kröfur eru lögvarðar, allir borðalögðu embættismennirnir og allt réttarkerfið er að baki þeim kröfum. Ég leyfi mér því að spyrja: (Forseti hringir.) Hvaða mótvægisaðgerða hyggst ráðherra grípa til til að verja heimilin fyrir áhrifum af kolefnisgjaldinu?