149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:39]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég get nú ekki annað en glaðst yfir því að fá að koma í stólinn. [Hlátur í þingsal.] Stóð til fyrr á þessu þingi að ég gerði það en fékk svo nótu frá tímaverði forseta sem sagði að minn tími væri búinn og það fór um mig hrollur því minn tími kom aldrei, en nú er hann kominn. [Hlátur í þingsal.]

Við erum í 1. umr. um fjárlög eins og við vitum öll sem sitjum í þessum sal og er áhugavert að fylgjast með henni því að hún er á margan hátt allt önnur en hefur verið á undanförnum árum, allt önnur umræða. Ég ætla ekki að leggja neitt gæðamat á hana en hún er önnur að því leyti að nú er ekki hrópandi ákall um útgjöld í þennan málaflokk eða hinn eins og við höfum þekkt á undanförnum árum. Mér finnst að þeir sem taka þátt í umræðunni og fjalla um fjárlagafrumvarpið vera svolítið út og suður, það er ekki hægt að rekja kannski einn þráð í þeirri umræðu. Einum flokki finnst eitt mikið, öðrum flokki finnst vera teflt á tæpasta vað og enn vanti einhver útgjöld jú og svo tekst sumum ræðumönnum að vera með báðar þessar skoðanir í einni og sömu ræðunni. Ég rek það ekki frekar. Síðan koma hv. þingmenn og ræða efnislega um og á áhugaverðan hátt um einstaka liði sem við höfum hlýtt á þegar liðið hefur á umræðuna. Ég þakka fyrir það.

Það er nokkuð sérstakt að standa í þessari umræðu núna því að síðustu tvö ár, svo ég reki það nú bara, virðulegi forseti, höfum við sett fjárlög við krefjandi og sérstakar aðstæður. Og enn einu sinni langar mig að rifja það upp í þessum ræðustóli að frágangur fjárlagafrumvarps haustið 2016, fyrir jólin 2016, með engan ríkisstjórnarmeirihluta jók útgjöld um 12,5 milljarða frá frumvarpi og þar til þingið hafði afgreitt það mál og þeir sem stóðu í því verki þá fengu á sig mikla gagnrýni að þenja ríkisútgjöldin svona gríðarlega.

Hér aukum við við þau um 55 milljarða. Við jukum þau líka verulega í síðustu fjárlögum. Það er það sem ég vil draga fram með þessu. Við höfum séð efnahagslífið vaxa gríðarlega á undanförnum árum, undanförnum mánuðum og okkur hefur tekist þó þannig að spila úr spilunum að við höfum ekki ógnað því jafnvægi sem við þurfum að búa við nema síður sé. Það eru enn þá horfur á ágætum hagvexti þó að hann sé ekki eins mikill og áður var og kannski er mun heppilegra og eðlilegra að ráða við hann í þeim tölum sem nú er spáð en að horfa á hann eins og hann hefur spilast á undanförnum árum. Stöðugleiki, ný tækifæri í atvinnulífinu og gott atvinnuástand, hækkandi laun, mikill kaupmáttur og lítil verðbólga hefur einkennt síðustu ár. Afgangurinn á ríkisfjármálum er nánast orðinn sjálfsagður og heimilum og fyrirtækjum hefur vaxið ásmegin. Þetta er gríðarlegur árangur. Samhliða þessu hafa skuldir lækkað og sparnaður aukist og það skipti máli að við lok ársins 2016 var hrein eignastaða landsins gagnvart útlöndum jákvæð í fyrsta sinn frá því mælingar hófust. Við höfum náð að efla orðspor okkar á erlendum mörkuðum og njótum lánskjara nú í samræmi við það. Þetta er ótrúlega mikil breyting á stuttum tíma og ég held að við áttum okkur og verðum að átta okkur á því við upphaf þessarar umræðu um fjárlagafrumvarpið hversu miklum áfanga við höfum náð. Tökum um það umræðu og viðurkennum það.

Heildarskuldir ríkisins frá árinu 2013 hafa lækkað um rúmlega 600 milljarða, farið úr 86% af landsframleiðslu þegar hlutfallið var hæst árið 2011 og eru nú að stefna í rétt rúm 30% eins og það verður við árslok, gangi fjárlagafrumvarpið eftir sem hér er lagt fram.

Á næsta ári, og það hefur verið rakið í ræðum hæstv. fjármálaráðherra, erum við að ljúka endurgreiðslum þeirra lána sem við tókum til þess að endurreisa bankakerfið og við erum að ljúka við að greiða þær skuldir sem á ríkissjóði dundu við það stóra efnahagsáfall sem varð fyrir um áratug síðan. Þetta er gríðarlegur áfangi og þetta er grettistak sem búið er að lyfta í skuldamálum þjóðarinnar og hefur áhrif á efnahagslíf okkar allt, hvort sem við horfum til heimila eða fyrirtækja. Það er mikilvægt að við varðveitum þetta og er sannarlega það sem við getum fyrst og fremst sagt að við höfum notað góðærið til, til að búa okkur undir þrengri tíma séu þeir væntanlegir. Það er í sjálfu sér ekkert í kortunum sem segir að stórkostlegar þrengingar séu fram undan, en við í þessu landi höfum áður séð stórar sveiflur enda höfum við búið við nýtingu náttúrugæða sem lúta vissulega öðrum lögmálum en mörg önnur efnahagskerfi sem við þekkjum. Sú gæfa að við erum nú að halda upp á, þ.e. aldarafmæli fullveldis, segir okkur að okkur hafi tekist vel að spila úr þeim spilum sem okkur voru gefin fyrir einni öld. Fátæk þjóð í tiltölulega stóru landi en er núna ein sú ríkasta og komin á öfundsverðan stað með fjármál sín og stöðu ríkissjóðs á þessum tíma, við upphaf þessarar fjárlagaumræðu, á einstökum og góðum stað.

Ráðstöfunartekjur heimila hafa aukist hratt undanfarin ár. Á síðustu árum hefur kaupmátturinn aukist um 25% og einkaneyslan hefur vaxið og ljóst er að fólk hefur borð fyrir báru og því hefur sparnaður enn aukist og þannig hafa heimilin nýtt sér uppsveifluna til að greiða niður skuldir og skuldahlutfall þeirra er nú einnig lágt í sögulegu samhengi og sömuleiðis er þjóðhagslegur sparnaður mikill eða hátt í 30% af vergri landsframleiðslu.

Allt saman eru þetta teikn um að okkur hefur gengið vel og árangur hefur náðst og það er okkar hlutverk í þessum sal að varðveita þann árangur þannig að við getum sagt að við höfum gengið til góðs og nýtt hagsveifluna með jákvæðum hætti.

Afkoma ríkisins hefur sem sé batnað með vaxandi þjóðartekjum og skynsamlegum ákvörðunum, m.a. með lækkun skulda, eins og ég hef rakið og við höfum gengið mjög langt í aukningu útgjalda á undanförnum árum og svo ég dragi fram eitt dæmi sérstaklega, t.d. aukin útgjöld til heilbrigðismála þar sem kemur mjög skýrt fram í fjárlagafrumvarpinu og því kynningarefni sem lagt er til kynningar á fjárlagafrumvarpinu, þar sem útgjöld á hvern skattgreiðanda, hvern mann, til heilbrigðismála voru á árinu 2010, 485 þús. kr. en eru núna áætlaðar um 650 þús. kr. í fjárlagafrumvarpinu, eða um 34% hækkun. Þetta er mikil breyting.

Auðvitað hefur þá umræðan í dag um fjárlagafrumvarpið breyst vegna þess að ákallið um framlög til heilbrigðismála var sterkt og mikið og til annarra þátta. Við höfum aukið útgjöldin til heilbrigðismála gríðarlega mikið og nú er komið að þeim tímapunkti að við þurfum alvarlega að fara að skoða hvað við fáum fyrir alla þá fjármuni sem við leggjum til þessara mikilvægu kerfa. Það er fagnaðarefni þegar hæstv. fjármálaráðherra boðar það og kynnir að ráðuneyti hans hafi hafið núna sérstaka vinnu í því hvernig auka má skilvirkni og nýtingu þeirra fjármuna sem við leggjum til hinna ýmsu málaflokka. Ég held að það sé grundvallarmál að við náum árangri í þeim efnum, að nýta fjármunina betur, að beita ríkisútgjöldum og fjárstýringu okkar með þeim hætti að við séum á hverjum tíma að fá sem mest fyrir þær krónur sem skattgreiðendurnir leggja til ríkissjóðs.

Það er nefnilega til takmarkað fjármagn. Það er til takmarkað af peningum, meira að segja má líka segja að til sé takmarkað annarra manna fé, sem við erum í raun og veru að ráðstafa hér á hverjum tíma og ákallið um meiri ríkisútgjöld eru fyrst og fremst ákallið um að ráðstafa einhverjum peningum sem við ætlum þá að sækja sem væru betur komnir hjá fólki sem þeirra aflar.

Við getum í eðli sínu rakið málaflokk eftir málaflokk og skoðað og velt fyrir okkur þróun útgjalda. Það hefur komið mjög skýrt fram í umræðunni hverjar helstu áherslurnar eru, kom mjög skýrt fram í desember í fyrra, virðulegi forseti, þegar við ræddum fjárlögin fyrir árið 2018, hverjar áherslur þessarar ríkisstjórnar eru, ég rek það ekki frekar hér, en höfða þá bara til þess sem hæstv. formaður fjárlaganefndar rakti í sinni ágætu ræðu að nú erum við kannski að komast á þann stað að þessi löggjöf og þetta umhverfi ríkisfjármála sem við erum að vinna eftir er loksins að fara að ná að virka og ná að taka heilan hring og við getum þá sagt að fjárstýringarvaldið hafi styrkst.

Fjárstýringarvaldið er orðið traustara og ég vænti þess að í meðförum hæstv. fjárlaganefndar um þetta mikilvæga frumvarp ræðum við það af yfirvegun. Við höfum þá vonandi lagt til hliðar umræðuna um að þetta sé ekki nóg eða hitt sé ekki nóg, því að hvenær er nóg nóg? Förum heldur að ræða af meiri yfirvegun um hvernig við nýtum fjármunina. Erum við að gera það með skynsamlegum hætti? Hvernig getum við gert betur?