149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:22]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir góða spurningu. Það sem er að gerast í þessu fjárlagafrumvarpi er að verið er að koma fjárveitingum til launa aðstoðarmanna í gagnsætt horf. Það sem hefur verið lenskan á undanförnum árum er að áætla fyrir tiltekinn fjölda aðstoðarmanna í fjárlagafrumvarpinu. Síðan hafa fleiri aðstoðarmenn verið ráðnir en gert hefur verið ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu og það bætt upp í fjáraukalögum eftir á þó að slíkur kostnaður geti ekki talist ófyrirséður.

Ég vissi að sjálfsögðu að ég yrði gagnrýnd fyrir að setja þann kostnað fram með gagnsæjum hætti í fyrsta sinn, en ég hef enga trú á að standa í því að vera með tilfærslur til að draga úr raunverulegum kostnaði í ásýnd fjárlaga. Ég held að hv. þingmenn ættu að fagna því. Hér eru tölurnar á blaði eins og þær líta út.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að aðstoðarmönnum hefur fjölgað. Þeim fjölgaði verulega milli t.d. áranna 2016 og 2017, fyrst úr 16 í 21 og svo úr 21 í 24. Það er gert ráð fyrir því í þessum fjárlögum að allir ráðherrar geti ráðið þá aðstoðarmenn sem gert er ráð fyrir í lögum. Þau lög eru ekki ný af nálinni, verð ég að segja við hv. þingmann. Þau voru samþykkt þegar ég sat síðast í ríkisstjórn, ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Þá var lagt til að fjölga aðstoðarmönnum þannig að allir ráðherrar hefðu tvo aðstoðarmenn og að auki hefði ríkisstjórn þrjá sameiginlega aðstoðarmenn. Eins og staðan er núna hafa allir ráðherrar tvo aðstoðarmenn, eftir því sem ég best veit, og ríkisstjórn er með tvo aðstoðarmenn af þremur sem hægt er að ráða inn samkvæmt lögum.

En af hverju var þetta gert? Jú, í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var rætt sérstaklega að mikilvægt væri að ráðuneyti eða ráðherrar hefðu sterkara pólitískt bakland inni í ráðuneytum sínum. Það var ástæðan fyrir þeirri breytingu sem var lögð fram á þeim tíma, í lögum um Stjórnarráðið, og ástæðan fyrir því að ég studdi hana. Það var metið mikilvægt eftir þá miklu (Forseti hringir.) umræðu sem var um þá skýrslu að ráðherrar hefðu sterkara pólitískt bakland.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að kostnaðurinn sé allur uppi á borðum á eins gagnsæjan hátt og mögulegt er.