149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:14]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á fasteignagjöldunum og það er rétt að að þingmenn Flokks fólksins hafa gert það áður. Þeir hafa ekki endilega verið ánægðir með þau svör sem ég hef gefið enda hef ég bent á að það er í valdi sveitarfélaganna, þetta er það form, þetta eru tekjur sveitarfélaganna en ekki ríkisins. Lögin eru vissulega ríkisins og það er ekkert mál að taka slíka umræðu í þinginu um það.

Það að fasteignamat hækki er auðvitað staðreynd vegna þess að markaðsverð eignanna hækkar. Í mörgum tilvikum er það jákvætt fyrir þá sem eiga slík hús en er um leið íþyngjandi þegar farið er að greiða af þeim. Ég get alveg tekið undir það að það getur verið verulega íþyngjandi fyrir eldra fólk sem hefur átt sinn sumarbústað um langa hríð og er ekki að fara að selja hann að slík gjöld hækki verulega, vegna þess að einhver sala á markaði á því svæði hefur orðið til þess að reiknireglan hækkar verðmat þeirra eigna.

Það er hins vegar í höndum hverrar sveitarstjórnar að yfirfara það og þær geta innan ákveðins ramma fært til prósentuna og í mörgum tilvikum hafa sveitarfélög gert það. Það er kannski við þau að ræða nákvæmlega þennan þátt, nema menn vilji taka hér upp tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem væri auðvitað hægt líka, af einhverju verða sveitarfélögin að hafa tekjur, og það mætti ræða hvort þetta sé ósanngjörn leið til þess og annað í þeim dúr en það eru engin áform uppi um að breyta slíku í augnablikinu. Við erum hins vegar stöðugt í viðræðum við sveitarfélögin um eðlilega tekjuskiptingu þannig að þau hafi nægilegar tekjur og þá gæti þetta mál þess vegna komið inn á það borð.

Ég fell á tíma hérna með Herjólf en auðvitað siglir Herjólfur þegar hann kemur í Landeyjahöfn þegar hann getur, ef það er ekki hægt siglir hann í Þorlákshöfn. (Forseti hringir.) Viðbúnaðurinn sem við höfum gert og hv. þingmaður þekkir er að gamli Herjólfur verði til taks á meðan við erum að læra á nýja ferju.