149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:27]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir þessar fínu spurningar. Það er rétt, sem kom fram hjá honum, að í fjármálaáætlun næstu fimm ára eru sérstakir viðbótarfjármunir settir í vegamál, 5,5 milljarðar á ári, 16,5 á þessum þremur árum, sem síðan falla út á seinni tveimur hlutunum. Við getum glaðst yfir því að á næsta ári í fjárlögum, af því að við erum að ræða þau hér, höfum við úr ágætum fjármunum að spila — ef ég man rétt 13,5 milljörðum, eitthvað slíkt. Við getum á næsta ári verið sátt við að við séum að bæta verulega í. En til lengri tíma verðum við að horfast í augu við að fjórða og fimmta árið í þessari fjármálaáætlun verða erfið, og þá væntanlega líka í samgönguáætlun sem er í flútti við fjármálaáætlunina.

Eins og hv. þingmaður kom inn á er grundvöllur gjaldtökunnar í vegakerfið smátt og smátt að molna vegna þess að það eru fyrst og fremst eldsneytisgjöld á bensín og dísil. Við erum að reyna að fjölga nýorkubílunum og þar af leiðandi minnkar tekjustreymið til ríkisins til að standa undir uppbyggingu og rekstri vegakerfisins. Þess vegna hefur ríkisvaldið nú í nokkurn tíma verið að skoða þessa hluti. Skýrsla á vegum fjármálaráðuneytisins var kynnt opinberlega nú síðsumars og í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu höfum við einnig verið að skoða hvort við getum samtvinnað þetta, þ.e. það að tryggja betur tekjugrunnana undir vegakerfið, einhvers konar gjaldtöku við notkun á vegunum, eða við einstaka framkvæmdir, m.a. til þess að koma inn á næsta ári, í samtali við þingið, með frumvarp — það er á þingmálaskránni hjá ráðherra — (Forseti hringir.) og hugmyndir um það hvernig við gætum búið til lagagrunn undir slíkt. Ef það gengur (Forseti hringir.) vel eftir gætum við bætt í þessi tvö ár sem við munum fara niður. Ég held að það sé spennandi verkefni og ég hlakka til samtalsins hér í þessum þingsal um það.