149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér geri ég grein fyrir þeim þáttum sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneyti er varðar frumvarp til fjárlaga árið 2019. Við höldum að sjálfsögðu áfram að sækja fram í þágu mennta-, vísinda- og menningarmála, en heildarframlög málefnasviðanna vaxa úr rúmum 104 milljörðum kr. í 109 milljarða. Það er hækkun upp á tæp 5% frá fjárlögunum 2018.

Fjárfesting til háskólastigsins eykst áfram, en framlög til þess nema 47 milljörðum kr. og er hækkunin um 5% frá fjárlögum síðasta árs. Háskólar okkar gegna lykilhlutverki í að stuðla að framsæknu samfélagi og við leggjum áherslu á að auka kennslu- og rannsóknarframlög til háskóla til að auka gæði náms og námsumhverfis. Þá aukum við stuðning við námsmenn um 3,5% á milli ára. Ég vil taka það fram að vinnu við endurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna miðar vel og frumvarp þess efnis verður lagt fyrir þingið haustið 2019.

Í fjárlagafrumvarpinu fylgjum við eftir áherslum um nýliðun kennara og er sérstakt 50 millj. kr. framlag til endurskoðunar á kennaranáminu. Að auki tókum við sérstakt tillit til þeirrar aukningar sem hefur orðið á fjölda umsókna um kennaranám. Sú þróun er auðvitað mikið fagnaðarefni.

Það er ánægjulegt að sjá hvað rektorar landsins eru sammála um að farið sé að birta til hvað varðar fjármögnun háskólanna. Sé miðað við nýjasta meðaltal OECD-ríkjanna frá árinu 2015 um framlag á hvern háskólanemanda stefnir í að árið 2020 hafi Ísland náð því markmiði eins og stefnt er að í stjórnarsáttmálanum. Því má aðallega þakka auknum framlögum til háskólanna síðastliðin ár. Einnig hafa ný viðmið frá OECD verið að breytast.

Virðulegi forseti. Nú víkur að framhaldsskólastiginu. Nemendur í öllum landshlutum hafa aðgengi að fjölbreyttu bók- og starfsnámi. 98% nemenda innritast á þetta námsstig. Heildarútgjöld á framhaldsskólastiginu eru tæpir 33 milljarðar og hækka um 3,1% á milli ára. Hækkun framlags á hvern nemanda er 12% á milli ára. Slík aukning hefur ekki sést í langan tíma. Að auki erum við að fjárfesta í bættum húsakosti framhaldsskólanna. Við erum til að mynda með verkefnisstjórn um húsnæðisþörf Menntaskólans í Reykjavík og vænti ég þess að hún skili mér tillögum síðar á árinu. Einnig gerum við vel við verk- og iðnnám í landinu og verður verknámsaðstaðan í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Borgarholtsskóla bætt. Í fjárlagafrumvarpinu 2019 er gert ráð fyrir 224 millj. kr. hækkun til reksturs framhaldsskólanna og er sérstök áhersla lögð á að hækka verð reikniflokka í starfs- og verknámi. Það er auðvitað líka í takt við stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar.

Virðulegi forseti. Við ætlum að styðja við áframhaldandi sókn í rannsóknum og vísindum og gera íslenskt efnahagslíf betur í stakk búið til þess að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Heildarútgjöld eru um 5,5 milljarðar og erum við að tala um aukningu um 9% á milli ára. Ég er mjög ánægð með þessa aukningu og fagna innilega þeim árangri sem okkar vísindamenn eru að ná í hinu alþjóðlega rannsóknarumhverfi.

Virðulegi forseti. Við höldum áfram að vinna í þágu menningar, lista, íþrótta og æskulýðsmála fyrir alla landsmenn. Við ætlum m.a. að bæta aðgengi og miðlun menningar og lista og setja íslenskuna í öndvegi í samræmi við ýmsar aðgerðir og heildstæða nálgun til þess að efla íslenskuna. Það var kynnt í vikunni. Framlög til ofangreindra málaflokka munu nema 15 milljörðum kr. sem er 500 millj. kr. hærri upphæð en kemur fram í fjárlagafrumvarpinu. Þetta skýrist vegna 400 millj. kr. sem við áætlum til endurgreiðslu á 25% hluta af kostnaði sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku, sem og 100 millj. kr. sem renna í nýjan barnamenningarsjóð sem settur verður á laggirnar. Þetta eru tímamótaaðgerðir og til þess fallnar að efla menningarlíf þjóðarinnar. Þessi stefnumótun nýtur stuðnings landsmanna, en í könnun sem nýlega var gerð telja um 90% landsmanna mikilvægt að íslensk bókmenning njóti stuðnings.

Virðulegi forseti. Það er sannarlega ánægjulegt að standa hér og standa við þau orð að um stórsókn í mennta- og menningarmálum sé að ræða og ánægjulegt að geta greint frá þessari þróun (Forseti hringir.) hér með ykkur, ágætu þingmenn.