149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Já, hagsmunir almennings — en hvað er almenningur? Heimurinn er að breytast og við erum að verða hluti af því sem getur kallast heimsfjölskylda. Við eigum auðvitað að styðja við þessi göfugu markmið. Ég er hins vegar ekki að gera athugasemd við það þótt við þurfum að gera það í einhverjum skrefum. En ég hnýt um að í tillögu til þingsályktunar um nýja þróunarsamvinnustefnu 2019–2023 stendur að þetta sé áþekkt þeirri tillögu sem samþykkt var 2013. Það er ekki rétt. Þetta er ekki líkt. Þar á er stigsmunur ef ekki eðlismunur vegna þess að í þeirri tillögu er beinlínis talað um að við ætlum og hvenær við ætlum að ná 0,7%. Í þeirri tillögu sem nú liggur fyrir er aðeins talað um að íslensk stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita 0,7%. Ég hefði viljað fá inn í þingsályktunartillöguna að Ísland muni líka uppfylla það, en ætlist ekki bara til þess að aðrir geri það.

Ráðherra gafst ekki tími til að svara hvað varðar 40% af þróunarsamvinnu sem fara til innanlandsaðstoðar. Sum aðildarríki innan DAC hafa viljað leyfa ríkjum að nota þetta nánast ótakmarkað meðan önnur hafa talað um að við ættum að halda okkur í einhverju meðaltali, sem er 12,5%. Væri ekki klókt og manndómur í því, hæstv. ráðherra, að við myndum núna í meðförum fjárlaga breyta textanum og segja að við stefnum að því að hlutur innanlandsaðstoðar af þróunarsamvinnu verði ekki meiri en 12,5%?