149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisfyrirspurnir. Fyrst varðandi viðskiptaþvinganir við Rússland og kostnað. Það er nú ekki bókað sérstaklega en við höfum náttúrlega átt mjög mikil samskipti við Rússa, þó að það hafi að vísu breyst eftir Skripal-málið varðandi æðstu ráðamenn. Þessi samskipti þýða auðvitað vinnu hjá ráðuneytisstarfsmönnum og reyndar ráðherrum, sérstaklega þeim ráðherra sem hér stendur. Það snýr ekki bara að því að þeir beittu okkur viðskiptaþvingunum sem komu illa niður heldur hafa þeir líka tekið út ákveðna afurðastöð sem þeir segja að uppfylli ekki heilbrigðisskilyrði sem ekkert bendir til að sé rétt. En það er ekki bókað neitt sérstaklega. Það eru mikil samskipti við Rússland og rússnesk yfirvöld og sérstaklega núna út af Norðurskautsráðinu en það er ekki tekið neitt sérstaklega út.

Framlög til þróunarsamvinnu eru nú svolítið hærri en hv. þingmaður vísaði til. Varðandi mælitækin þá látum við erlenda aðila, þ.e. alþjóðastofnanir, koma að því og DAC, sem er undirstofnun eða tengslastofnun OECD, hefur verið að taka út þróunarsamvinnu okkar og hefur gefið henni góðan vitnisburð og síðan komið með ákveðnar athugasemdir sem við erum að vinna eftir. Ég geri auðvitað kröfu til þess að féð nýtist með sem allra bestum hætti. Þetta skiptist nokkuð, það er þessi mannúðaraðstoð sem við leggjum til þegar neyðarmál koma upp. Við tökum þátt í ákveðnum stofnunum, sérstökum stofnunum Sameinuðu þjóðanna, og síðan er það tvíhliða aðstoð.

Kostnaður vegna hælisleitenda er inni. Það er ekki íslensk uppfinning, þetta er með þessum hætti vegna alþjóðlegs samanburðar.

Varðandi Háskóla Sameinuðu þjóðanna held ég að það verkefni sé eitt af því sem við getum verið mjög ánægð með og sé að mörgu leyti ákveðin þungamiðja, í það minnsta í þeim málaflokkum sem varða þróunarmálin. Við þurfum hins vegar að sjá (Forseti hringir.) hvernig við getum nýtt þetta enn þá betur. Við erum að bæta verulega í og við erum búin að bæta við á nokkrum árum (Forseti hringir.) 3.000 milljónum á ári í þróunarmálin. Eitt af því sem við munum auðvitað bæta í er þessi skóli (Forseti hringir.) og þá er spurning hvernig getum við nýtt þá fjármuni sem allra best.