149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þm. Ólafur Ísleifsson fer vel með tölur en þetta er eitt af því sem menn eru náttúrlega að takast á um. Þetta er meira en þetta beina framlag. Það sem snýr að hælisleitendum er að hluta til líka sett inn í þróunarmálin og þar skilur á milli. Ég veit að hv. þingmaður er bæði talnaglöggur og les rétt upp þannig að ekki má skilja það með neinum þeim hætti að ég hafi verið að bera brigður á það.

Þetta er eitt af því sem menn takast hér á um, segja að það sé óeðlilegt að taka tölur með hælisleitendur inn en það er bara til að hafa alþjóðlegan samanburð réttan. Við eigum þá náttúrlega frekar að takast á um það hvort menn vilja að við setjum meira í málaflokkinn. Þetta er til þess að við séum að bera saman epli og epli en ekki epli og appelsínur.