149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst út af kostnaðinum við EES-nefndina, gert er ráð fyrir einhverjum tugum milljóna þar. Ég vil biðja hv. þingmann afsökunar á því að ég skuli ekki vera með það á hraðbergi, en það liggur alveg fyrir að kalla þarf til ýmsa sérfræðinga og leggja mikla vinnu í málið, fyrir utan að nýta þá vinnu sem er til staðar í ráðuneytinu. Eins og ég vísaði í áðan snýst þetta ekki um að einhverjir þrír einstaklingar geti gert þetta öðruvísi, þeir stýra þessu og þurfa að kalla ýmsa til. Ég held að hv. þingmaður þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að hérna verði sparað til því að málið er mjög mikilvægt. Við þekkjum það af þeim skýrslum sem hafa verið gefnar út að þeim hefur fylgt umtalsverður kostnaður en við sjáum ekki eftir þeim kostnaði því að þetta er slíkt hagsmunamál að við þurfum að hafa eins góðar og skýrar upplýsingar og mögulegt er.

Varðandi það sem hv. þingmaður vísar í í sambandi Brexit höfum við verið með þær sviðsmyndir sem ég nefndi. Alveg frá því að ég tók við sem ráðherra hefur stefna okkar verið að vera tilbúin í öllum þeim sviðsmyndum sem upp kunna að koma. Núna liggur fyrir að væntanlega verða lögð fram frumvörp sem tengjast útgöngutímabilinu, réttindum borgara og vöruskiptum, ef ég man þetta rétt. Það erum við að vinna í þéttu sambandi, ekki aðeins við bresk yfirvöld heldur ekki síður við önnur EES-ríki og Evrópusambandið. Við reynum að hafa gott og náið samstarf við alla þessa aðila. Þetta eru nánir bandamenn okkar allir saman og hagur allra að þetta gangi jafn vel og raun ber vitni.

Annar hv. þingmaður spurði mig áðan hvaða leið við munum fara. Við erum ekki komin á þann stað. Við munum ekki ráða því ein og sér. Það mun mikið velta á því hvað kemur út úr samningaviðræðum Breta og Evrópusambandsins. Það eina sem við getum gert er að vera eins vel undirbúin og mögulegt er fyrir allar mögulegar sviðsmyndir (Forseti hringir.) þannig að þegar hlutirnir gerast, og þeir gætu gerst mjög hratt, þurfum (Forseti hringir.) við ekki að undirbúa eitthvað sem við hefðum átt að vera búin að undirbúa.