149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:46]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin við þeim spurningum sem ég beindi til hans áðan er varða öryggis- og varnarmál og fjárframlög til þeirra. Við verðum seint sammála um þau en ég legg þrátt fyrir það áherslu á að við ræðum með reglubundnum hætti öryggis- og varnarmál í þingsal. Ég held að það sé af hinu góða sem og skipulegar umræður um utanríkismál yfir höfuð og yfirleitt. Annað sem við þurfum greinilega að ræða hér með reglubundnum hætti eru þróunarsamvinnumálin. Við erum að gera vel og betur en áður. Þó að við uppfyllum ekki 0,7% markmið Sameinuðu þjóðanna er varðar hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu erum við að gera betur en áður. Þegar kemur að því að flokka þjónustu við kvótaflóttamenn innan lands sem þróunarsamvinnuframlag þurfum við að mínu mati líka að ræða þá ákvörðun og það sérstaklega í þingsal. Við höfum greinilega um nóg að tala á þessum þingvetri er varðar utanríkismál og ég veit að hæstv. ráðherra er mér sammála um það.

Mig langar undir lokin, og get ekki staðist þá freistingu, að tala um þá ákvörðun að endurreisa ekki sendiskrifstofu Íslands við Evrópuráðsþingið í Strassborg sem þýðir að við erum eina þjóðin af 47 sem eiga sæti í Evrópuráðsþinginu sem ekki er með sendiskrifstofu við þingið, ólíkt því sem var fyrir hrun og ákveðið var að endurvekja 2016. Það eru vissulega vonbrigði því að þó að búið sé að setja á fót sendiherraembætti á Rauðarárstíg sem fer m.a. með málefni Evrópuráðsins, sem er vel og gott, mun Ísland fara með formennsku í Evrópuráðinu árið 2021. Það þarf ekki að ítreka það, hvorki fyrir hæstv. ráðherra né öðrum í þessum sal, hversu mikilvægar grundvallarstoðir Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið eru á sviði mannréttinda, laga og lýðræðis. Stofnanir Evrópuráðsins, þar með talin ráðherranefndin, Evrópuráðsþingið og Mannréttindadómstóll Evrópu, eru mikilvægustu mannréttindastofnanir álfunnar og viðvera okkar í Strassborg skiptir þar höfuðmáli.

Ég vil, ekki síst sem formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og varaforseti þess, hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að auka fjárframlög þegar kemur að styrkingu á viðveru okkar Íslendinga við Evrópuráðið. Þar eigum við að (Forseti hringir.) gera okkur gildandi þegar kemur að mannréttindamálum, réttindum borgaranna og því að tryggja lýðræði okkar allra í þessari álfu.