149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:11]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns er lúta að mönnun lögreglunnar. Ég held hins vegar, og mér hefur fundist það í þessari umræðu, bæði innan þings og utan líka, að menn hafi mismunandi sýn á það hver hin almenna löggæsla er. Þegar menn tala um almenna löggæslu hefur mér fundist því svolítið bera við að menn vísi þá til lögreglumanna á götum úti. Það er auðvitað mikið rétt, það er hluti af almennri löggæslu en almenn löggæsla í dag, árið 2018, er bara orðin svo miklu víðtækari en það. Kynferðisbrot af áður óþekktum toga, bæði að eðli og umfangi, berast lögreglunni í dag. Þetta er almenn löggæsla og ég þreytist ekki á að benda á það vegna þess að mér finnst menn líta fram hjá því að rannsókn kynferðisbrota og rannsókn efnahagsbrota og rannsókn netglæpa og rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi sem fer ekki fram á götum úti er almenn löggæsla. Hún er almenn löggæsla. Embættin, m.a. á höfuðborgarsvæðinu, hafa fjölgað rannsakendum sem ekki eru endilega lögreglumenn. Þetta er þróun sem er óhjákvæmileg, hún breytir því ekki að löggæslan er öll að eflast. Hún breytir því ekki og ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns af því að við þurfum líka að tryggja fjölgun í liði almennra lögreglumanna og það erum við að gera með m.a. ráðstöfunum sem ég greip sérstaklega til, að tryggja fleiri pláss fyrir nemendur í Háskólanum á Akureyri, í löggæslunáminu. Það þarf að tryggja að við fáum útskrifaða lögreglumenn og breyting sem varð á náminu á sínum tíma og núna er að koma í ljós hvernig mun virka. Okkur líst öllum vel á það en það þarf að tryggja að þetta fólk skili sér síðan til löggæslustarfa. Áhuginn hefur verið mikill þannig að ég hef ekki áhyggjur af nýliðuninni til lengri tíma.