149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Þegar rætt er um mannaflann eða ársverkin er það auðvitað mismunandi eftir landshlutum, en á höfuðborgarsvæðinu hefur ársverkum fjölgað eitthvað, ef ég man rétt, eftir að ég sá einhvern tímann tölur um það sérstaklega. Ég nefndi það fyrr í dag að í ljósi breytts fyrirkomulags eða breyttra tíma eru það ekki endilega alltaf lögreglumenn sem eru fengnir til að rannsaka mál, það þarf stundum að leita til sérfræðinga á öðrum sviðum sem sinna þá lögreglumálum og löggæslumálum. Allt þetta varðar réttaröryggi og almannaöryggi, þetta er allt í almannaþágu. Það þarf stundum að líta á þetta í víðara samhengi en bara til fjölda lögreglumanna að störfum. Þó er það þannig að lögreglumönnum hefur verið fjölgað eins og ég hef nefnt í ýmis verkefni og það stendur til.

Í því fjárlagafrumvarpi sem nú er til umræðu og gefur fyrirheit um árið 2019 liggur alveg fyrir að veruleg aukning verði í löggæslunni, hátt í 70 manns, fjölgun um 70 stöðugildi í löggæslunni. Stór hluti þeirra er við verkefni við landamæravörslu til að mæta skuldbindingum í Schengen-samstarfi okkar. Þá er ekki bara verið að vísa til landamæravarða við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, heldur er t.d. líka sérstaklega eyrnamerkt fjölgun stöðugilda á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og þar sem gæta þarf að landamærum annars staðar. Það er líka fjölgun á höfuðborgarsvæðinu. Mönnum verður tíðrætt um þetta og ég árétta að þau framlög sem við horfum á eru sérstaklega vegna fjölgunar ferðamanna. Þar hafa verið bæði tímabundin framlög sem hafa verið gerð varanleg, og einnig tímabundin framlög til þess að mæta ákveðnum álagspunktum í ýmsum umdæmum. (Forseti hringir.) Það verður haldið áfram á þeirri braut árið 2019.