149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:18]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi opnun á nýju meðferðarheimili. Annars vegar er það svo að til stendur að opna úrræði í útjaðri höfuðborgarinnar innan tíðar og er gert ráð fyrir fjármagni til þess í fjárlagafrumvarpinu. Það hefur dregist og fyrir það hefur verið svarað. Ég hef sagt að það er enginn hryggari yfir því en sá sem hér stendur. Varðandi nýtt meðferðarheimili er alveg ljóst að við glímum við sama vandamál þar og varðandi það sem á að opna á næstunni, það er ekki sérstaklega vinsælt, því miður, hvorki hjá sveitarfélögum né íbúum þeirra hverfa þar sem reisa á heimilin. Við það höfum við glímt og m.a. verið í bréfaskriftum við lögfræðinga og aðra sem eru í forsvari fyrir fólkið sem býr í hverfunum. Það hryggir að í samfélagi sem gagnrýnir á hverjum degi að við getum ekki byggt slík heimili sé á sama tíma ekki vilji til þess að hafa eitt slíkt í túnfætinum. Það er dapurlegt.

Við aukum fjárveitingar umtalsvert til allra þeirra liða sem hv. þingmaður nefndi. Ég talaði um það áðan að nýjar fjárveitingar væru til málefna barnaúrræða í fjárlögum, hátt í hálfur milljarður. Það eru 4 milljarðar til öryrkja. Þar vinnum við að því að koma upp starfsgetumati. Í gangi er starfshópur sem væntanlega lýkur störfum á næstunni. Gert er ráð fyrir því að lagt verði fram frumvarp fyrir þingið en innleiðingartími starfsgetumatsins getur hugsanlega orðið eitt til eitt og hálft ár. Jafnframt er gert ráð fyrir því að þegar við innleiðum starfsgetumatið, og það verður kynnt hérna, verði farið yfir hvernig fjárveitingar verða auknar til málaflokksins á grundvelli þeirrar nýju hugsunar sem byggð er upp í starfsgetumatinu.

Það er gert ráð fyrir því að samhliða því að kynna nýtt starfsgetumat (Forseti hringir.) verði kynnt áætlun og áherslur um það hvernig fjárveitingar til málaflokksins muni þróast á næstu tveimur til þremur (Forseti hringir.) árum, umfram þá 4 milljarða sem eru nýir í (Forseti hringir.) frumvarpinu.

Ég náði því miður ekki að svara öðrum spurningum (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður var með. Ég get (Forseti hringir.) það kannski í lokaræðu.