149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:59]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að snúa mér beint að efninu og ætla að byrja á því að tala um öryrkja. Hæstv. velferðarráðherra talar um 4 milljarða sem eigi að leggja í málaflokkinn. Ég get ekki séð að ein einasta króna eigi að fara í það að gefa öryrkja kost á því að kaupa sér einni kartöflu meira á mánuði þegar hann er í rauninni í manngerðri fátæktargildru sem er nánast ómögulegt fyrir hann að komast úr. Það er í rauninni ekkert gert hér til þess að reyna að liðka til fyrir því.

Ég hef áður komið með lausn á þessum svokallaða vanda sem er talinn vera vegna mikillar fjölgunar öryrkja. Við getum fækkað öryrkjum án þess að hrinda þeim fyrir björg og við getum hjálpað öryrkjum upp úr manngerðri fátæktargildru án þess að það kosti 4 milljarða, án þess að það kosti krónu, en í staðinn myndum við auka stórlega innstreymi í ríkissjóð.

Það liggja fyrir gögn og skýrslur frá löndum eins og Svíþjóð og Ungverjalandi frekar en Hollandi, ég held að það sé Hollandi frekar ef ég man rétt. Svíarnir ákveða að gefa öryrkjum kost á því að fara út á vinnumarkaðinn og vinna og reyna að bjarga sér sjálfir ef þeir mögulega geta. Það er kannski öflugasta starfsgetumatið sem við getum mögulega fengið og þarf engar nefndir og engin ráð eða eitt eða neitt til þess. Það gerist ekkert annað en að hvatningin er það mikil að þeir reyna eins og þeir mögulega geta. Margir hverjir geta það í rauninni ekki og þar leiðandi þurfa þeir að snúa við og fara aftur inn í kerfið. En aðrir gátu það svo sannarlega, margir sem eru að kafna í þunglyndi og vanlíðan höfðu líkamlega burði. 30% af þeim einstaklingum í Svíþjóð sem reyndu fyrir sér á þennan hátt skiluðu sér aftur inn á bótakerfið, en 70% héldu áfram á fullri ferð úti í samfélaginu.

Þegar hæstv. velferðarráðherra talar um að hugsa út fyrir boxið, að reyna að gera eitthvað sem er virkilega nýtt í stöðunni, finnst mér ástæða til að skoða þetta sem við þurfum þó a.m.k. ekki að segja að kosti krónu heldur yrði þvert á móti stórkostleg bragarbót.