149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, en staðreyndin er sú að ég er ekki að tala um neina aukningu í útgjöldum frá ríkissjóði. Spurningin snerist ekki um það hvort viðkomandi einstaklingar fengu vinnu heldur þá staðreynd sem skýrslur Svíþjóðar sýna. Þessir einstaklingar fengu vinnu, þeir voru ekki skertir á þessum reynslutíma sem þeir fengu, þannig að það var ekki um það að ræða.

Svo ég vindi mér yfir í eldri borgarana. Við í Flokki fólksins höfum lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að afnema frítekjumark á launagreiðslur eldri borgara. Staðreyndin er sú að samkvæmt skýrslu sem ágætur maður, Haukur Arnþórsson, vann fyrir Félag eldri borgara er það alveg á hreinu og hafið yfir vafa að það myndi gagnast í auknu streymi fjármagns inn í ríkissjóð. Þetta eru einstaklingar sem eru orðnir eldri. Þeir eiga ekki mörg ár eftir á vinnumarkaði. Þeir eiga möguleika á að rífa sig upp úr manngerðu fátæktargildrunni, en, nei, það er ekki gert. Það er alveg með ólíkindum miðað við það að þetta kostar ekki krónu. Það er ekki eins og ég sé að tala um eitthvað sem kosti marga milljarða á milljarða ofan að leggja í þennan og hinn málaflokkinn. Það kostar ekki neitt. Það kostar bara það að þora að stíga skrefið og sýna djörfung og dug, hugsa út fyrir boxið, stíga út fyrir rammann og láta vaða.

Að endingu segi ég: Endurreisum verkamannabústaðakerfið og reynum að hugsa stórt í húsnæðismálum og hættum þessum smábarnaskrefum vegna þess að grunnurinn að allri framtíð barnanna okkar, sem líður illa mjög mörgum núna, er heimilisfesti, öruggt húsnæði, ekki að þurfa að flytja 10, 20 sinnum áður en þau verða 12 ára, vegna þess að þau hafa hvergi stöðu. Það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði hér um daginn, að aldrei hefðu verið önnur eins skil á húsnæðislánum, hlýtur að tengjast því að yfir 10.000 heimili fuku út á guð og gaddinn, þannig að allar þær fjölskyldur eru örugglega ekki skuldum vafðar vegna húsnæðislána; þær geta ekki einu sinnið farið í greiðslumat.