149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:06]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Bara rétt til þess að botna umræðuna um örorkulífeyrisþegana og til þess að undirstrika mikilvægi þess að við innleiðum þá hugsun þar sem fólk er aðstoðað við að fara út á vinnumarkaðinn er gert ráð fyrir því að örorkulífeyrisþegum muni fjölga um 30% til ársins 2030 frá árinu 2016, þessi áætlun var gerð þá. Áætlað er að framreiknaðar greiðslur miðað við þá þróun, ef við aukum ekkert til einstakra aðila, ef við aukum ekki greiðslurnar til hópsins, aukist engu að síður úr 41 milljarði í 90 milljarða.

Það sem er svo mikilvægt er að við útbúum kerfi til að aðstoða fólk við að fara út á vinnumarkaðinn svo það lendi ekki á örorkubótum þannig að við getum í framtíðinni, 2030 er ótrúlega stutt í burtu, aukið greiðslur við þá sem raunverulega þurfa á því að halda, sem raunverulega geta ekki annað en verið á örorkubótum. Við getum það ekki meðan það er að fjölga svona rosalega í þessum hópi. Þess vegna er það eitthvað í kerfinu okkar sem við þurfum að breyta. Það erum við að gera með róttækum hætti.

Varðandi eldri borgara er það svo að núverandi ríkisstjórn hefur þegar hækkað frítekjumarkið upp í 100.000 kr. Ég hef sagt það áður í þessari umræðu að við erum núna að einbeita okkur að örorkulífeyrisþegunum, en við erum engu að síður að skoða stöðu þeirra eldri borgara sem hafa lakasta afkomu og lakastar tekjur. Þar er samvinna og samtal í gangi á milli stjórnvalda og samtaka eldri borgara. Það er ekki komin niðurstaða út úr því, það verður vonandi sem fyrst, og þar er horft sérstaklega á þann hóp sem hefur bágastar tekjurnar.

Varðandi húsnæðismálin tek ég undir með hv. þm. Ingu Sæland, að þar þurfum við svo sannarlega róttækar breytingar og nýja nálgun og nýja hugsun í þeim málum. Ég er mjög opinn fyrir því og mjög jákvæður fyrir því. Við verðum saman í byltingunni þar, ég og hv. þingmaður.