149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég vil víkja hér aðeins að kolefnisgjaldinu en þar er um háar fjárhæðir að ræða. Tekjur af gjaldinu eru áætlaðar 5,9 milljarðar á árinu 2019, hækkun milli ára um 550 milljónir. Hér er um síhækkandi skattheimtu að ræða á hinn almenna bifreiðaeiganda, ekki síst þá sem búa á landsbyggðinni, þar sem notkun rafmagnsbifreiða er mjög takmörkuð. Auk þess má ekki gleyma því að alls ekki allir hafa efni á því að kaupa sér rafmagnsbíl og þeir henta ekki öllum.

Gjaldið bitnar verst á tekjulægsta hópnum sem hefur ekki efni á að fá sér bifreið sem losar minna. Ríkisstjórnin ætlar að setja 6,8 milljarða í kolefnisbindingu á kjörtímabilinu. Þetta eru miklir peningar og eins gott að þetta beri einhvern árangur. Hæstv. umhverfisráðherra hefur viðurkennt að erfitt sé að meta árangur af kolefnisgjaldinu. Það kom fram í svari ráðherrans á síðasta löggjafarþingi við fyrirspurn frá hv. þm. Ólafi Ísleifssyni.

Síðan er það Katla, nýjustu fréttir af eldstöðinni eru mjög athyglisverðar. Nýjar rannsóknir sýna að hún losar gríðarlegt magn af koltvísýringi út í andrúmsloftið, um 20 kílótonn á dag. Á ársgrundvelli er það meira en öll losun Íslands til samans ef ég skil þetta rétt. Þetta vissi bara enginn og enginn veit hversu lengi þetta hefur staðið yfir. Þetta sýnir einfaldlega að þessi kolefnisjöfnunarmál eru meira og minna órannsökuð og á meðan svo er er ekki hægt að skattleggja almenning eins og gert er. Það vantar alla yfirsýn yfir stöðu þessara mála.

Ég vil því spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Er þessi gjaldtaka á almenning forsvaranleg í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um árangurinn og mælingarnar og annað slíkt sem við höfum fengið fréttir af?