149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð yfir sitt málefnasvið og ég vil segja það strax að ég fagna mjög áherslum um aukna landvörslu og aukna vörn á fjölsóttum ferðamannastöðum. Ég fagna því einnig að menn ætli að taka á uppbyggingu á þegar friðlýstum svæðum, mér líst mjög vel á það.

Það er hins vegar eitt atriði sem ég hef staldrað aðeins við og það er í sambandi við útblástur og bindingu. Svo illa vill til að núna líklega á síðustu útmánuðum töpuðum við einni stærstu gróðrarstöð sem við áttum, sem er Barri á Egilsstöðum, sem hafði lengi barist í bökkum og gafst að lokum upp, því miður. Hún hefði væntanlega gagnast vel núna þegar við ætlum að gera gangskör í kolefnisbindingu.

Það er annað sem vakti athygli mína, yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sem gæti kallast bensínlaust Ísland 2030, að menn skuli leggja svo mikla áherslu á að taka útblástur sem er 4% af heildarlosun. Ég hefði líka viljað sjá að ríkisstjórnin setti alvörukraft í það að almenningssamgöngur yrðu vistvænni. Ég vek athygli á því að ég held að það sé ekki til einn einasti strætisvagn til á Íslandi sem er með svona tvinnbúnaði, þ.e. bæði rafmagn og dísil, sem er þó mjög algengt víða erlendis. Eins er með hópferðabíla. Sú herferð gegn einkabílnum sem birtist hér og mun einkum bitna á þeim sem búa fjarri Reykjavík er að mínu mati ekki skynsamleg og ég held að menn hefðu frekar átt að beina kröftum sínum að því að taka á losuninni með því að ryðja ofan í skurði og snúa sér að almenningssamgöngum af fullu afli.