149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir innleggið. Ég held að við deilum mjög svipuðum skoðunum þegar kemur að þessum málum. Ég tel einmitt mjög mikilvægt að samþætta stefnu í landbúnaði og stefnu í loftslagsmálum. Það er tekið fram í aðgerðaáætluninni að vinna eigi með bændum og þar eru sauðfjárbændur nefndir sérstaklega, enda kemur það fram í stjórnarsáttmálanum að vinna eigi að því. Við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra settum í gang vinnu einhvern tímann fyrr á árinu sem miðar að því að koma fram með hugmyndir og tillögur um hvernig megi nálgast það markmið sauðfjárbænda að kolefnisjafna sig. Við eigum von á því að fá þær tillögur í hús til okkar um mánaðamótin október/nóvember og viljum byggja á þeim grunni aðgerðir í þá átt. Ég vísa því í þá vinnu að svo komnu máli, en ég held að við deilum þeirri sýn, ég og hæstv. ráðherra og hv. þingmaður, að þessir tveir þættir þurfi að vinna saman.

Ég tek undir að mikil tækifæri eru fólgin í því að styrkja búsetu víða um land akkúrat í þessum geira og reyndar líka í náttúruverndinni, að bændur geti í auknum mæli orðið vörslumenn lands, ef við getum kallað það svo. Ég hlakka til að greina síðar frá ákveðnum hugmyndum um það en ætla að láta það vera núna.