149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:57]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna þeim viðbótarframlögum sem áætluð eru til málefnasviðsins umhverfismál á fjárlögum ársins 2019 og því mikilvæga skrefi sem fyrsta útgáfa aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum er.

Það er mikilvægt að við náum skuldbindingum okkar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en ég er mjög sammála því sem kemur fram í aðgerðaáætluninni, að markmið okkar í loftslagsmálum megi ekki að einskorðast við það. Þess vegna eru aðgerðir til að binda kolefni ekki síður mikilvægar. Það er mikilvægt að samræma þær aðgerðir öðrum umhverfismarkmiðum og horfa þannig á skyldur okkar gagnvart heimsbyggðinni og komandi kynslóðum við að vernda gróður og jarðveg og binda kolefni sem eina heild.

Í framhaldi af því langar mig að halda áfram með það sem hv. þm. Óli Björn Kárason ræddi. Nú hafa Skógræktin og Landgræðslan átt samstarf við bændur um verkefni sín um langt árabil og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig vinnan við að samræma ný og eldri markmið í því samstarfi fer fram og hvort einhverjar grundvallarbreytingar séu á rammanum utan um það samstarf, hvort við eigum von á slíku.

Svo vil ég líka leggja áherslu á það sem kemur fram í aðgerðaáætluninni um rannsóknir og vöktun, um grunnþekkingu á þeim ferlum sem liggja að baki bindingunni. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort skráning á ástandi lands og mismunandi ræktun sé nægilega markviss. Erum við að skrá í marga gagnagrunna, getum við eitthvað einfaldað þá vinnu og gert hana aðgengilegri fyrir alla sem koma að henni?