149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég átti eftir að svara einni spurningu hv. þingmanns frá fyrri ræðu hans, ætla að gera það hér með, varðandi óvissu um hvernig kolefnisbindingin er færð til bókar. Vísindunum fer fram hvað þetta varðar frá ári til árs. Það er alveg rétt að við vitum kannski minna um endurheimt votlendis en í hinum, en þó alla vega nóg til þess að við erum örugg á því að aðgerðir í þá veru að endurheimta votlendi skila klárlega árangri.

Varðandi Evrópusambandið og hvernig kolefnisbindingin yrði meðhöndluð þar kemur fram í aðgerðaáætlunarplagginu frá okkur að líklegt sé að það gæti orðið kannski 1–2% sem myndi gilda inn í Parísarsamkomulagið.

Hvað varðar mat á kolefnisgjaldinu plús ívilnanir varðandi rafbíla á móti því að banna hefur það ekki verið greint nákvæmlega. Þetta markmið með að banna nýskráningar, ég tek skýrt fram að það eru nýskráningar á bensín- og dísilbifreiðum árið 2030, er sett fram til að gefa skýr skilaboð um að á þeim tíma þurfum við einfaldlega að vera komin á þann stað að ekki sé lengur fýsilegt að ráðast í aðgerð sem slíka. Ef við horfum á þróunina sem hefur verið t.d. varðandi rafbíla er líklegt að jafnvel árið 2025 verði þeir orðnir samkeppnishæfir í verði við venjulega bensínbíla. Þá held ég að boltinn fari hratt að rúlla. Ég er kannski svona bjartsýnn en ég held að þessi mál muni taka skemmri tíma en við höfum haldið.

Borgarlínuna verð ég að eiga inni hjá hv. þingmanni.