149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:30]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir hamingjuóskir til hæstv. umhverfisráðherra og okkar allra með langþráða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Hún er mikilvægt skref í baráttunni gegn þeirri miklu vá sem að okkur steðjar. Mikið vill meira og ég tilheyri þeim hópi að ég hefði gjarnan viljað sjá djarfari og framsýnni skref stigin í umræddri aðgerðaáætlun. Mig langar til að fá fram skoðanir hæstv. umhverfisráðherra á nokkrum atriðum.

Samgönguráðherra hefur boðað hér stórátak í samgöngumálum. Ég verð því miður að segja að ég sé ekki það stórátak í því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum. Í þeim línum þar sem talað er um almenningssamgöngur, sem eru grundvöllurinn að því draga úr losun og breyta ferðavenjum, er heil 161 millj. kr. veitt í þær og hvergi minnst á borgarlínu eins og fram hefur komið.

Mig langar mjög mikið til að fá það fram hjá hæstv. umhverfisráðherra hvort hann deili þeirri skoðun með mér og vonandi fleirum að væntingar og þrár til eflingar almenningssamgangna séu meiri en 161 millj. kr. er til marks um.

Ég tel líka of mikla áherslu lagða í aðgerðaáætluninni á mótvægisaðgerðir og breytta landnotkun á borð við endurheimt votlendis og skógrækt. Endurheimt votlendis er ekki viðurkennd aðferð í því að standa við Parísarsamkomulagið. Ég velti líka fyrir mér hver staðan sé á samningaviðræðum við ESB um losunartölur, sem margir segja að sé grunnforsenda fyrir áframhaldandi vegferð Íslands í baráttunni gegn loftslagsbreytingunum, og spyr hæstv. umhverfisráðherra getur upplýst okkur um það hér.

Mig langar líka til að heyra afstöðu hæstv. umhverfisráðherra (Forseti hringir.) hvað varðar græna tekjumöguleika sem ég hefði viljað sjá koma fram í þessu fjárlagafrumvarpi á borð við græna skatta á flugfélögin, (Forseti hringir.) eins og sænska ríkisstjórnin setti á fyrir tæpum þremur árum, hraðari hækkun kolefnisgjaldsins, niðurfellingu á ívilnunum á bílaleigur, útgáfu (Forseti hringir.) á grænum skuldabréfum o.s.frv. Ég held að við hefðum getað stigið þarna djarfari og framsýnni skref, (Forseti hringir.) bæði er varðar tekjumöguleikana og líka að gefa í þegar kemur að fjármögnun og aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Þær eru (Forseti hringir.) hraðar og við höfum (Forseti hringir.) ekki verið að standa (Forseti hringir.) við okkar síðustu ár. Ég hefði, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) viljað sjá djarfari skref stigin, bæði í fjárlagafrumvarpinu og í aðgerðaáætluninni.