149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Andsvar á alla talsmenn, engin andsvör við lokaræðu. Það er tvennt sem mig langar til að ítreka hér og spyrja fjármálaráðherra um í lok umræðunnar. Það sem hefur vakið athygli mína í þessari umræðu er það sem vantar í fjárlagafrumvarpið. Það hefur komið fram hjá fagráðherrum að von sé á ýmsum lagafrumvörpum með sitt kostnaðarmat sem er þá ekki, að því er virðist, í fjárlögunum. Þá langar mig til að fá grófa áætlun um það hve miklu er ætlast til að þingið reddi aukalega inn í fjárlögin; væntanlega er það ekki þingið því að um er að ræða ríkisstjórnarmál, en áhugavert væri að heyra það.

Við höfum verið að klóra okkur í kollinum yfir þessum tölum, sérstaklega samanburðartölum milli ára í fjárlagafrumvarpinu, þar sem stendur annars vegar fjárlög 2018 og hins vegar frumvarp 2019. Tölurnar pössuðu bara alls ekki. Eftir að hafa spurt nokkra sem kunna aðeins á þetta kom upp úr dúrnum að þessar tölur eru á ólíku verðlagi sem gerir það að verkum að þegar við erum að tala um hækkun á milli fjárlaga 2018 og frumvarps 2019 er verið að bæta við verðlagshækkunum eftir því sem ég fæ best skilið. Þá virðist verðbólgunni vera bætt ofan á töluna 2019 sem aukalegri hækkun, ríkisstjórnin var í raun að monta sig af verðbólgunni. Segjum sem svo að verðbólga væri 10%. Þá væru allar tölurnar 2019 þeim mun hærri en fjárlög 2018. Þá sjáið þið hvað við erum að auka útgjöldin rosalega mikið. Hluti af aukningunni er til kominn vegna verðbólgu, en samt erum við að auka útgjöldin rosalega mikið.

Þetta finnst mér rosalega óþægilegt. Ég skil framsetninguna vissulega, en þetta gerir yfirlesturinn mun erfiðari. Mér þætti vænt um að fá athugasemdir fjármálaráðherra hvað þetta varðar.