149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðu um fjárlagafrumvarpið og það fyrirkomulag sem viðhaft hefur verið hér. Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra að það var gott að fá fagráðherrana alla í dag og heyra sjónarmið þeirra, spyrja um málefnasvið þeirra o.s.frv., þetta er búinn að vera langur dagur hjá okkur öllum en árangursríkur. Hér hefur margt gott komið fram. Ég þakka fyrir þau svör sem ráðherrar hafa gefið í þessum umræðum. Þannig að ég tek undir með hæstv. ráðherra að þetta hefur gefist vel. Eins og hann sagði sjálfur í umræðunum hér í gær erum við að læra inn á þessi nýju lög og það er vel.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði í upphafi þessarar umræðu, ég vil frekar nota tækifærið og koma aðeins inn á það sem ég kom ekki að tímans vegna í fyrri ræðum mínum. Mig langar að koma aðeins inn á skattkerfisbreytingar. Á bls. 111 í frumvarpinu er komið inn á viðbótarlífeyrissparnaðinn og hið almenna úrræði um úttekt iðgjalda sem greidd eru í séreignarlífeyrissjóð til kaupa á íbúð eða greiða niður lán. Þau verða felld niður um mitt næsta ár. Það hefur fengið litla umræðu í umræðu um fjárlagafrumvarpið og það kemur svolítið á óvart. Í fjárlagafrumvarpinu segir að nýting þessa úrræðis hafi farið ört vaxandi, sem ég tel vera jákvætt. Þá spyrjum við: Hvers vegna skyldi það vera? Vegna þess að húsnæðisverð er í hæstu hæðum. Þetta er mjög mikilvæg heimild. Ég verð að segja að hún hefur gefist vel. Þannig að það vekur nokkra undrun að mínu mati að ríkisstjórnin ætli að fella þessa heimild úr gildi á sama tíma og húsnæðismarkaðurinn er í þeirri alvarlegu stöðu sem hér hefur verið lýst og fjallað hefur verið um.

Þetta mun hafa það í för með sér að draga mun úr greiðslum í séreignarsparnaðarsjóði. Það er erfitt að átta sig á því hvort ríkisstjórnin sjái ekki að það er slæmt að það dragi úr sparnaði landsmanna einmitt þegar hvetja þarf til sparnaðar, ekki síst vegna þess að það ríkir ríkisútgjaldahvatning og þensla í þessu fjárlagafrumvarpi, eins og ég hef sagt. Það er kristaltært. Ég held að við getum verið sammála um að verið er að spenna bogann nokkuð hátt í þeim efnum.

Kjarasamningar eru lausir um áramótin og þróun verðbólgu er óviss. Þá koma menn með að nauðsynlegt sé að draga úr sparnaði landsmanna og afnema þessa mikilvægu heimild. Það tel ég mjög óskynsamlega ráðstöfun og hefði viljað sjá að þessi möguleiki væri enn fyrir hendi, en ríkisstjórnin hefur ákveðið að svo verði ekki.

Einnig kemur fram í frumvarpinu að með þessu fáist viðbótartekjur af tekjuskatti einstaklinga sem taldar eru gefa 1,1 milljarð, minnir mig að standi í frumvarpinu. Það er svolítið dæmigert fyrir þessa ríkisstjórn að mínu mati að almenningi er talin trú um að verið sé að bæta kjör hans eins og með þessari litlu hækkun á persónuafslætti á sama tíma og annar mikilvægur skattafsláttur er afnuminn, eins og ég hef lýst hér. Það tel ég vera slæmt og vanhugsað.

Ég vil þá segja jákvætt um þessa fjármálastjórn á vegum ríkisins og fjármálaráðherra að verið er að greiða niður skuldir og greiða inn á lífeyrisskuldbindingar. Eins og komið hefur fram í umræðunni held ég að ekki sé annað hægt en að hafa gert það með myndarlegum hætti í því góðæri sem ríkt hefur.

Það er líka slæmt að ekki skuli hafa verið hægt að nota tækifærið til þess að afnema eða draga úr skerðingum, einkum og sér í lagi til eldri borgara sem hafa áhuga, vilja og getu til þess að vinna að hluta. Að afnema þær skerðingar sem því fylgir að hluta til held ég að sé lýðheilsumál og skipti eldri borgara mjög miklu máli. Í því efnahagsástandi sem við höfum verið í, þessum jákvæðu aðstæðum, hefði svo sannarlega verið hægt að stíga fyrsta skrefið svo einhverju næmi í þeim efnum.

Herra forseti. Ég sé að tíminn líður hratt. Ég vildi einnig hnykkja aðeins á því sem mér finnst ekki hafa verið horft nægilega í, það eru hinir efnahagslegu óvissuþættir. Við sjáum að það eru aðvaranir úr ýmsum áttum. Ekki er hlustað nægilega vel á þær að mínu mati. Það er mjög athyglisverður kafli í frumvarpinu á bls. 91 sem heitir Efnahagslegir óvissuþættir. Þar segir að eftir mikinn og langvarandi hagvöxt undanfarinna ára virðist flestir óvissuþættir nú fremur til þess fallnir að hafa neikvæð áhrif á framvindu efnahagsmála. Þar er vitnað í könnun sem Gallup gerði meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins. Hún sýnir að 40% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu versna á næstu sex mánuðum. Einungis 7% telja að þær muni batna.

Þetta er mjög alvarlegt að því leytinu til að óvissan getur breytt öllum forsendum í frumvarpinu. Þá sjáum við hversu dýrmætt það hefði verið í fjármálaáætluninni ef við hefðum fengið að sjá einhverjar sviðsmyndir dregnar upp um hvaða áhrif það getur haft á efnahagslífið og framvindu efnahagsmála, t.d. varðandi ferðaþjónustuna ef mikill samdráttur yrði þar á skömmum tíma. Við ræddum það í umræðum um fjármálaáætlunina og fjármálastefnuna að það væri mjög mikilvægt og hæstv. fjármálaráðherra kom einmitt inn á formið. Ég vænti þess og vona að unnin verði bragarbót á því þannig að hægt sé að meta betur aðstæður til framtíðar vegna þess að þær eru svo mikilvægar í þessari vinnu. Þegar við höfum óraunsæjar forsendur eins og þær birtast okkur, eins og t.d. að hagvöxtur verði óbreyttur, er svo mikil hætta á því að það sem kemur í framhaldi verði óraunhæft. Ég hefði viljað sjá að hlustað hefði verið meira á þau aðvörunarorð sem birtast í frumvarpinu.

Nú líður nú að lokum. Ég segi og ítreka að það er afar mikilvægt, t.d. varðandi vaxtabætur og barnabætur, að þessum skerðingum og niðurfellingamörkum verði breytt. Það kjarninn (Forseti hringir.) í því að þessar tillögur nái fram að ganga.

Að lokum vil ég segja það sem ég sagði í upphafi umræðunnar að (Forseti hringir.) ég tel að það vanti aga í þetta fjárlagafrumvarp. (Forseti hringir.) Þarna er farið í ákveðna vegferð án fyrirhyggju.