149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

samningar við sérfræðilækna.

[15:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég er á svipuðum slóðum og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þar sem mér þótti lítið til svara hæstv. fjármálaráðherra koma fær hann tækifæri til að svara aðeins skýrar núna. Ýmsir hafa áhyggjur af þeirri leið sem við erum á í heilbrigðiskerfinu. Stjórnvöld hafa skrúfað fyrir nýja samninga við sérfræðinga þrátt fyrir að nokkrir tugir sérfræðilækna hafi horfið af samningi og að mikill skortur sé á heilbrigðisþjónustu sem þeir hafa sinnt mjög víða, svo mikill að við þurfum að senda sjúklinga úr landi með ærnum tilkostnaði vegna einhverrar pólitískrar kreddu um að við viljum ekki semja við jafnvel sömu lækna og sinna þessum aðgerðum erlendis með kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga. Við treystum okkur ekki til að semja við þá hina sömu um kostnaðarþátttöku hér heima fyrir með ærnum kostnaði fyrir stjórnvöld.

Það er ekki aðeins sá sem hér stendur eða hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem hafa þessar áhyggjur. Þrír samflokksmenn hæstv. ráðherra skrifuðu ágæta grein í Morgunblaðið um helgina. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra þeirrar einföldu spurningar: Deilir hann þeim áhyggjum sem samflokksmenn hans lýsa í þeirri ágætu grein?

Í öðru lagi, þar sem hæstv. ráðherra er einmitt fjármálaráðherra: Telur ráðherra það vera skynsamlega nýtingu á opinberu fé þegar við sendum sjúklinga erlendis í aðgerðir sem hægt er að sinna hér á landi með mun minni tilkostnaði og þar af leiðandi væntanlega sinna mun fleiri aðgerðum og ganga hraðar á biðlista en ella? Er það skynsamleg nýting opinbers fjár? Er þessi sama nýting opinbers fjár í samræmi við siðareglur þær sem ríkisstjórnin hefur sett sér, einmitt um að ráðherrar sýni ráðdeild við meðferð fjármuna hins opinbera?

Það er kannski einfalt að svara síðustu spurningunni.