149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[17:24]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langaði að koma hingað upp til að fagna því að þetta mál sé komið á dagskrá og hljóti forgang strax á þingvetrinum. Á Íslandi hefur undanfarin ár verið unnið ötult starf við að tryggja betur réttindi fatlaðs fólks en þar hefur verið mikið verk að vinna. Nú fyrr á árinu stigum við stórt skref í því þar sem sett voru ný lög um réttindi fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir auk þess sem lög um félagsþjónustu sveitarfélaga voru endurskoðuð og samningur um réttindi fatlaðs fólks innleiddur að hluta.

Lögfesting samningsins í heild væri skref sem myndi talsvert betur tryggja réttindi þeirra sem hann á að vernda. Það er stór munur á því að íslenska ríkið skrifi undir samning og viðurkenni tilteknar skuldbindingar sínar og að samningurinn sé lögfestur og hafi þannig bein réttaráhrif á borgarana. Það er skref sem við höfum tekið með veigamikla mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að og sem dæmi má nefna mannréttindasáttmála Evrópu og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég sé enga ástæðu fyrir því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skuli ekki lögfestur líka hér á landi.

Ég vil þakka Samfylkingunni fyrir að leggja þetta þingmál fram og lýsi yfir eindregnum stuðningi við framgang málsins og vona að það hljóti skjóta og góða meðferð í nefndum þingsins.