149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Ég ætla bara að koma hér í lok umræðunnar og þakka kærlega fyrir þær undirtektir sem þetta mál fær. Ég vil vekja sérstaka athygli á nokkrum ummælum þingmanna. Hv. þm. Inga Sæland bendir réttilega á þann mannauð sem liggur í samfélagi fatlaðra einstaklinga. Það þarf að taka tillit til hans og hann er gríðarlegur. Að sama skapi vil ég taka undir þann málflutning hv. þm. Ingu Sæland að auðvitað skiptir máli að þessi hópur sem aðrir þurfi að hafa tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi.

Þá vil ég einnig taka undir orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem benti á að það hafa að sjálfsögðu átt sér stað ýmiss konar framfarir í réttindamálum fatlaðra en betur má ef duga skal. Hún bendir sérstaklega á að hér þurfi að innleiða sveigjanlegt vinnuframboð fyrir fatlaða og aukið námsframboð, ekki kannski síst aukið framboð framhaldsmenntunar fyrir fatlaða einstaklinga sem kjósa að fara þá leið.

Ég fagna sérstaklega stuðningi formanns velferðarnefndar, Halldóru Mogensen, sem tekur undir að vinna þurfi málið hratt og vel. Að sama skapi þakka ég fyrir orð hv. þm. Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, sem er einn af stuðningsaðilum þessa máls.

Aðeins að lokum. Ég átta mig alveg á því hvað hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er að tala hér um og ég er ekki að beina þessum orðum til hennar, ég trúi því að hún styðji þetta mál og flestir ef ekki allir þingmenn Vinstri grænna, en við skulum passa okkur aðeins því að þið sjáið að við erum strax svolítið dottin í kerfiskarlinn. Við vitum ekki alveg í hvaða nefnd þetta á að fara, ég legg til að þetta fari í velferðarnefnd. Tökum bara þá ákvörðun. Það er hægt að deila um það. Hér er lögð fram tillaga um að málið eigi að fara til sérstaks stýrihóps sem er fyrir utan þingið. Auðvitað ætla ég ekki að skipta mér af því hvað stýrihópar skoða og auðvitað ætla ég ekki að stýra því til hvaða hópa velferðarnefnd Alþingis leitar, en í guðanna bænum, við skulum ekki drepa málinu á dreif, setja þetta í enn eina nefndina eða festa þetta í einhverjum stýrihópi. Ég er ekki að gera lítið úr þeirri vinnu sem er á vettvangi stýrihópsins en ég þekki kerfið og kerfinu mun finnast þetta eitthvað flókið. Ég er bara að segja að við sem stöndum hér höfum löggjafarvaldið, við höfum valdið til að álykta eins og hér er lagt til og ég hvet og brýni þingmenn, tökum þetta skref. Ég veit að það er hægt að þvæla þetta mál í stýrihópum, í nefndum, og embættismenn í mörgum ráðuneytum munu gefa haft skoðun á þessu. Gott og vel, við hlustum auðvitað á sérfræðinga, ég er ekki að gera lítið úr því. Við þurfum að vanda okkur, þetta er stórt mál, en við skulum ekki missa þetta mál til kerfiskarlanna ef svo má segja því að við höfðum hérna orð á kerfiskarlahugsuninni. Með fullri virðingu fyrir kerfiskörlum, þeir eru alveg nauðsynlegir.

Við skulum taka þessa pólitísku ákvörðun um að lögfesta þennan samning, eftir að sjálfsögðu vandaða vinnu velferðarnefndar og að sjálfsögðu getur velferðarnefnd Alþingis leitað til hvaða stýrihóps sem er, það getur alveg verið nauðsynlegt, en við skulum ekki missa þetta mál frá okkur og svo hverfur þetta inn í kerfishítina ef svo má segja. Við höfum séð það gerast ansi oft að einhverjir starfshópar eiga að skoða ýmislegt og lítið verður úr málum og ég veit að þingmenn vilja það ekki, þeir vilja sjá afgreiðslu þessa máls. Ég ítreka það að ég er ekki að biðja um einhverja flýtimeðferð, ég vil bara að þetta mál fái ákveðinn forgang hjá þingnefndinni og það fái þá meðferð sem ég held að við öll styðjum og að skrefið til fulls verði tekið að þessu sinni.

Að lokum langar mig að nefna sérstaklega texta sem barst til þingmanna í morgun frá Þroskahjálp, það var nú búið að nefna það hér áðan, en ég ætlaði bara að gera þessi orð í ályktun Þroskahjálpar að mínum lokaorðum. Hér segir, með leyfi forseta:

„Með því að lögfesta samninginn verður mannréttindum fatlaðs fólks veitt aukin vernd og réttaröryggið eykst. Fatlaður einstaklingur getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir dómi eða stjórnvöldum. Lögfesting mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni fatlaðs fólks fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi fatlaðs fólks og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki. Lögfesting samningsins um fatlað fólk mun og auka, á alþjóðavettvangi, traust á virðingu íslenska ríkisins fyrir mannréttindum fatlaðs fólks.“

Ég held að þessi litli „passus“ segi allt sem segja þarf hér í lokin.