149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

6. mál
[18:18]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til þess að veita andsvar vegna þess að spurningu var eiginlega beint til mín.

Þegar þjóð verður fyrir áfalli og hörmungum af þessu tagi þarf að fara yfir allt hvað gerðist, af hverju, hvort við getum lært eitthvað o.s.frv. Það var gert. Það fór fram ítarleg rannsókn og skoðun og ýmsar tillögur til úrbóta voru lagðar fram. Sú vinna fór strax af stað í þessari stóru skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Einhverra hluta vegna dugði ekki einhverjum að fara yfir þetta og skoða þetta. Það þurfti að refsa einhverjum, það var eins og menn væru ekki sáttir fyrr, í staðinn fyrir að segja: Heyrðu, bíddu, menn gerðu sitt besta við einhverjar aðstæður en svo fór sem fór. Síðan voru þessir ákærðu ekki vitlausari en svo að þeir undirbjuggu löggjöf sem gjörsamlega reisti þessa þjóð á mettíma. Neyðarlögin voru grundvallaratriði. Ótrúlegur árangur náðist þar sem menn voru löngu búnir að undirbúa sig fyrir hrunið, undirbúa þetta fyrir hrunið, gerðu alveg ótrúlega vel — og fengu svo ákæru í hausinn. Það finnst mér fyrir neðan allar hellur. Þetta blasti bara svona við mér.

Ég lít ekki á afsökun Alþingis hér og nú sem eitthvert uppgjör við einhverja þingmenn þá. Ég segi bara: Alþingi ber ábyrgð á þessu. Þetta var sneypuför fyrir landsdóm, sneypuför, það liggur fyrir. Biðjum viðkomandi velvirðingar á því.

Það er bara það sem mér finnst eðlilegt. Hvort formið er síðan með þessum eða öðrum hætti geta menn deilt um.