149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:09]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir góða og skýra spurningu. Nei, mér finnst allt í lagi að tekjutengja bætur. Ég er ekkert endilega á því að bætur eins og barnabætur eða vaxtabætur eigi að vera óháðar tekjum eða eignastöðu.

Það sem ég er að gagnrýna hér er að við erum búin að ganga of langt í skerðingunum en við getum alveg tekist á um það hvar mörkin eiga að vera. Helmingurinn er dottinn úr vaxtabótakerfinu, eins og ég gat um áðan, og 1/4 úr barnabótakerfinu. Auðvitað átta ég mig á því að það hefur gerst vegna þess að laun hafa hækkað og húsnæðisverð hefur hækkað. Ég veit alveg af hverju þær skerðast en skerðingarnar hafa bara gengið of langt. Barnabætur skerðast við 242 þús. kr. Það eru ekkert margir með 242 þús. kr., sem betur fer, en einhverjir og það er reyndar undir lágmarkslaununum.

Það segir auðvitað að skerðingin gengur of langt. Við þurfum ekkert að tefla saman andstæðum hagsmunum, þeim sem eru með lægstu tekjurnar og millitekjuhópunum. Ég vil að millitekjuhópar fái barna- og vaxtabætur en við getum alveg deilt um það og rætt það hvenær skerðingin hefst og hversu brött hún eigi að vera. Ég er alls ekki að segja að allir eigi að fá barnabætur. Ég held reyndar að á sumum Norðurlöndunum séu barnabætur ótekjutengdar, ég er ekki að biðja um barnabætur í mínu tilviki. Mér finnst það reyndar allt í lagi, að það megi skoða það.

Kjarninn er bara sá að við höfum gengið of langt. Þetta eru orðin vanmáttug úrræði, þau hafa gefist vel gagnvart þeim hópi sem þau eiga að ná til. Það er það sem ég er að segja. Setjum aðeins meiri kraft í þessi úrræði. Þau eru ekki það dýr og þau ná til þessa afmarkaða hóps og þeirra hagsmuna sem langflestir deila með okkur. Það kostar 25–30 þús. kr. á mánuði að hafa barn í leikskóla á Íslandi, það eru 300 þús. kr. á ári. Við erum kannski með leikskólabörn í fimm, sex ár ef þú ert með tvö til þrjú börn, þú ert strax kominn með 3 milljónir í leikskólakostnað. Það er ýmiss konar kostnaður sem fellur á barnafjölskyldur í þessu landi og við eigum að gera lífið bæði ódýrara og auðveldara, ekki síst fyrir ungu kynslóðina okkar.

Við eigum að nota þessa sameiginlegu sjóði okkar til þess og inn koma skattarnir. Við þurfum auðvitað að fjármagna þetta.