149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að gefnu tilefni aðeins árétta nokkur atriði varðandi þær áherslur sem birtast í þessu frumvarpi sem aftur tengist fjárlagafrumvarpinu.

Þegar við erum með tekjutengingar í bótakerfunum erum við að reyna að tryggja að þeir takmörkuðu fjármunir sem við höfum úr að spila skili sér til þeirra sem eru í mestri þörf. Þetta á við um bótakerfin sem eru til umræðu í þessu frumvarpi, vaxtabótakerfið, barnabótakerfið, en líka önnur kerfi eins og þau sem hv. þingmaður nefndi, t.d. almannatryggingar. Mér finnst ekki alveg sanngjarnt að stilla málinu þannig upp að stjórnvöld séu að taka rétt af fólki þegar við erum hreinlega að ræða um bótakerfi sem eru ætluð til þess að bæta stöðu fólks.

Við erum með barnabótakerfi til að styðja betur við fólk. Tekjuskerðingarnar í því kerfi eru eingöngu til þess hugsaðar að þeir takmörkuðu fjármunir sem við erum með þar dreifist rétt til þeirra sem geta gert tilkall til bótanna. Að kalla hins vegar tekjuskerðingarnar, eins og hv. þingmaður gerir, einhvers konar tilraun til að taka rétt af fólki finnst mér vera í raun og veru alger öfugmæli. Bótakerfið er einmitt til þess hugsað að koma bótum til fólks.

Síðan er það önnur umræða með krónu á móti krónu skerðingu í lífeyristryggingum hjá okkur, en er samt sem áður tengt þessu sama. Þar var komið á fót kerfi með takmörkuðum fjármunum til að bæta ofan á önnur réttindi sem fyrir voru. Ráðherra málaflokksins á þeim tíma, það eru komin rétt tæplega tíu ár, vildi bæta stöðu þeirra sem voru með allra minnst milli handanna (Forseti hringir.) og koma á fót þessari sérstöku framfærsluuppbót (Forseti hringir.) en situr uppi með umræðuna um að það sé ómannúðlegt að vera með krónu á móti krónu skerðingu.