149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[16:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir því að í þessu frumvarpi eins og áður hefur verið eru ýmiss konar bráðabirgðaákvæði framlengd. Reyndar allmörg. Þar á meðal t.d. um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, um lög um félagslega aðstoð og lög um almannatryggingar. Mig langaði að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvernig staðan væri á því að finna þessum hlutum eitthvert varanlegt horf. Þá vil ég sérstaklega nefna 14. tölulið bráðabirgðaákvæðis í lögum um almannatryggingar en þar er fjallað um tölu sem öryrkjum er mjög annt um því að hún er himinhá miðað við það sem er í varanlegu greininni í lögunum sjálfum. Nokkrum sinnum hef ég fengið póst frá áhyggjufullum öryrkjum sem hafa áhyggjur af því að þetta verði ekki framlengt. Í svipinn man ég tölurnar ekki alveg, en þetta eru rúmlega 300 þús. kr. í lögunum, minnir mig, og 1,3 milljónir í bráðabirgðaákvæðinu. Þannig að þetta er ofboðslega mikill munur.

Þetta er auðvitað afleiðing af því að alls konar lagfæringar hafa verið gerðar hér og þar. Ég skil alveg hvers vegna þetta gerist en ég á aðeins erfiðara með að skilja hvers vegna þetta varir svona lengi, hvers vegna ekki er hægt að laga þetta. Við lögðum fram breytingartillögu á sínum tíma um að gera eitt ákvæðið þarna varanlegt en vegna þess að við erum í minni hluta var það fellt í atkvæðagreiðslu án rökstuðnings eða útskýringa. Mig langaði þess vegna að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir útskýringum, hvort ekki fari að koma sá tími að hægt sé að setja þessi bráðabirgðaákvæði, sem greinilega er ekki ætlunin að breyta í bráð, í varanlegan hluta laganna sem ekki þarf sífellt að framlengja. Ef svarið er að það sé verið að vinna að einhverri heildarsýn á það mál langar mig að vita hver staðan á þeirri vinnu sé.