149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:57]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú geng ég í skóla hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés frá því hér áðan þegar hann sá ástæðu til að koma í pontu og leiðrétta hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur vegna þess að hún hefði farið rangt með eina staðreynd eða eina tölu.

Það gerði hv. þm. Ólafur Ísleifsson hér áðan þegar hann hélt því fram að verðlagshækkanir vegna kolefnisgjalds væru hálft prósent eða 0,05%. Það er ekki rétt, hv. þingmenn. Það er alvarlegt þegar menn fara fram hér í sölum Alþingis í þeim tilgangi að sá efasemdarfræjum í huga manna um hvað kolefnisgjaldið þýði raunverulega, að geta ekki farið rétt með tölur.

Það kemur algjörlega skýrt fram í greinargerðinni með frumvarpinu að áætluð hækkun á vísitölu neysluverðs vegna kolefnisgjaldsins er 0,016%, það eru 160 krónur á hverja milljón sem heimili í landinu skulda. Ég er ekki að gera lítið úr því, en það er himinn og haf á milli þess og að segja eins og hv. þingmaður kom hérna inn á áðan að þetta munaði heilum milljarði í skuldum heimilanna. Það munar jú 320 milljónum í það heila. Það er alveg peningur og það er hellingur, en það er 1/3 af því sem hv. þingmaður hélt fram.