149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[18:03]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Þessi málflutningur hv. þingmanns er einhvers staðar á bilinu aumkunarverður og fyrirlitlegur. Það sem skiptir höfuðmáli hér er að þessi áhrif eru fyrir hendi. Hafi ég mislesið einhverja tölu einhvers staðar skal ekki standa á mér að leiðrétta hana. (Gripið fram í.) — Ja, ég bara hef ekki séð sýnt fram á það og ég þarf að fá miklu öruggari heimildarmenn en hv. þingmann til að sýna mér fram á það. [Hlátur í þingsal.] (ÓGunn: Dugir hæstv. ráðherra?)

Ég vil bara ítreka það sem ég hef sagt. Hér er mikið alvörumál á ferðinni. Það er það að skattlagningu af þessu tagi fylgja þessar hliðarverkanir og ætti að réttu lagi a.m.k. að kalla á mótvægisaðgerðir en að sjálfsögðu þannig að það kerfi sem leggur þessar hliðarverkanir á almenning í landinu, heimili og atvinnufyrirtæki, sé sniðið þannig að þessi áhrif séu ekki fyrir hendi.

Ég heyri að hv. þingmaður kemst ekki lengra með málið en að vera með eitthvert fliss hér í þingsölum þegar þessi mál ber á góma. Íslensk heimili hafa löngu gert sér grein fyrir að í þessum ágæta hv. þingmanni er ekkert hald, ekki hið minnsta hald og engin vörn fyrir þann háska sem heimilunum er búinn vegna þess fyrirkomulags sem við búum við. En það hefur ekki staðið á hv. þingmanni að tala fyrir áframhaldi þessa kerfis. Mér er eiginlega alveg misboðið hvernig hv. þingmaður leyfir sér að koma hér fram. Ég árétta og ítreka að það er mjög brýnt að þessum hliðaráhrifum verði eytt og ég hef leyft mér að benda á það hér í ræðu minni að þessi hliðaráhrif verða til í tilfelli kolefnisgjaldsins vegna stefnu sem stjórnvöld hafa ekki hugmynd um hvaða áhrif hefur, og það jafnvel þó að hv. þingmaður geri sér ekki grein fyrir því.