149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

4. mál
[18:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum. Í frumvarpinu er lögð til almenn verðlagsuppfærsla á nær öllum gjöldum laganna, en flest þeirra hafa haldist óbreytt að krónutölu frá árinu 2010. Þau gjöld sem finna má í lögunum eru af ýmsum toga. Þar má fyrst nefna dómsmálagjöld eins og gjald fyrir stefnu og áfrýjunarleyfi, gjald fyrir hvers konar atvinnuleyfi, ýmis vottorð, þinglýsingar, útgáfu vegabréfs og ökuskírteinis o.fl. Í frumvarpinu er lagt til að flest gjöld verði uppfærð til árslokaverðlags miðað við áætlaða vísitölu neysluverðs í desembermánuði 2018. Þó eru ekki lagðar til hækkanir á þeim gjöldum sem voru síðast hækkuð í byrjun ársins 2018 eða voru tekin upp í fyrsta sinn á því ári.

Virðulegi forseti. Ljóst er að það væri á ýmsan hátt heppilegra að haga hækkun gjalda með öðrum hætti þannig að þau yrðu hækkuð tíðar eftir atvikum ef á annað borð stendur til að láta þau halda í við verðlag og þá með reglulegri hætti en verið hefur nema menn vilji fylgja þeirri stefnu að láta gjöldin rýrna að verðgildi yfir tíma og horfa frekar til annarra tekjustofna. En ætli menn sér hitt, að sjá gjöld af þessum toga þróast í einhverju samhengi við verðlag í landinu er líklega til framtíðar eðlilegra að þau séu verðleiðrétt ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti, ef ekki árlega. Þá má velta upp þeirri spurningu hvort leiðrétta eigi gjöldin með tilliti til þróunar á vísitölu neysluverðs eða einhvers annars, t.d. launa, en að baki gjaldtökunni stendur fyrst og fremst launakostnaður sem oftar en ekki er langt umfram gjaldið sjálft.

Mat á áhrifum tillagna frumvarpsins er eftirfarandi: Verðlagsuppfærsla samkvæmt frumvarpinu tekur mið af breytingum á vísitölu neysluverðs frá síðustu breytingum á fjárhæðum viðkomandi gjalda til áætlaðrar desembervísitölu 2018. Sem fyrr segir hafa flest þessara gjalda verið óbreytt að krónutölu til frá árinu 2010, en frá þeim tíma hefur vísitalan sem sagt hækkað um tæplega 30%. Þá hefur vísitala launa hækkað um og yfir 70% á sama tíma. Áætlað er að verðlagsuppfærslan auki tekjur ríkissjóðs um 500 millj. kr. á ársgrundvelli og það mun leiða til 0,01% breytinga á vísitölu neysluverðs.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.